Fljúga til Prag og Vilnius

Í sumar ætlar Iceland Express að fljúga í fyrsta skipti til höfuðborga Litháen og Tékklands. Áfangastaðir félagins verða því sextán frá og með júní.

Áætlun Iceland Express fyrir komandi sumar hefur tekið breytingum því félagið hefur hætt við að hætta við flug til Edinborgar. Í fyrra var borgin í fyrsta skipti hluti að leiðarkerfi félagsins en var ekki inn á upphaflegri sumaráætlun þessa árs. Því hefur nú verið breytt og tvisvar í viku verður flogið til skosku borgarinnar.

Auk þess ætlar félagið að fljúga vikulega til Prag í Tékklandi og Vilnius í Litháen. Prag hefur, allt frá falli járntjaldsins, notið mikilla vinsælda ferðamanna og fjöldi ferðaskrifstofa hér á landi boðið upp á ferðir þangað.

Þeir eru hins vegar mun færri sem heimsótt hafa Vilnius en samkvæmt tilkynningu frá Iceland Express búa hátt í tvö þúsund Litháar hér á landi. Beint flug til höfuðborgarinnar ætti að koma þeim hópi vel sem og þeim Íslendingum sem vilja heimsækja Eystrarsaltslöndin en verðlagið á þeim slóðum er oftar en ekki mjög hagstætt.

TENGDAR GREINAR: Edinborg er uppáhaldsborg Breta
NÝJAR GREINAR: Borgin þar sem hótelin gefa afslátt um helgar

Mynd: Visit Britain