Hádegismatur fyrir séða sælkera í Stokkhólmi

Það kostar sitt að gera vel við sig í mat og drykk í höfuðborg Svíþjóðar. Hér eru tveir veitingastaðir þar sem góður matur er borinn á borð í hádeginu fyrir mun lægra verð en á kvöldin.

Í Stokkhólmi, líkt og svo víða annars staðar, er hægt að gera góð kaup á veitingahúsum um miðjan dag. Það er því ekki nauðsynlegt að spenna bogann um of til að fá eitthvað meira og betra en skyndibita í hádegisverð.

Hér eru tveir staðir í borginni þar sem flestir ættu að ganga sáttir frá borði og aðeins tvö þúsund krónum fátækari. Reyndar örlítið meira ef keypt er vín með matnum.

Rolf´s Kök: Fyrir 123 sænskar krónur fá gestir þessa vinsæla veitingastaðar í miðborginni súpu og fisk- eða kjötrétt í hádeginu. Það er góður díll því á kvöldin er verðið alla vega tvöfalt hærra. Kokkarnir í eldhúsinu hjá Rolf eru duglegir við að elda sænska rétti og ferðamenn fá því ágætis sýn á matarkúltúr heimamanna með því að snæða þar. Verð á drykkjarföngum er hins vegar soldið hátt og rukkað er fyrir vatnið.

Urban Deli: Í einu líflegasta hverfi borgarinnar, Södermalm, er að finna fallegt torg sem kallast Nytorget og þar er matsölustaðurinn Urban Deli. Í hádeginu er réttur dagsins seldur á 110 sænskar og maturinn er ögn hefðbundnari en hjá Rolf´s Kök og ekki fylgir nein súpa með. Bekkurinn er þétt skipaður á Urban Deli í hádeginu enda maturinn vel útilátinn, frekar ódýr og góður.

Lesa má meira um þessa staði og fleirri í nýjum vegvísi Túrista fyrir Stokkhólm

TENGDAR GREINAR: Hóteltékk: Story Hotel í Stokkólmi
NÝJAR GREINAR: Miklu betri matarlykt á GatwickBorgar sig að fljúga á nóttunni?

Mynd: Rolf´s Kök

Sértilboð á hótelum í Stokkhólmur