Borgin þar sem hótel gefa afslátt um helgar

Á virkum dögum streymir til höfuðborgar Belgíu fólk sem á bókaðan fund með starfsmönnum Evrópusambandsins og NATO. Um helgar geta ferðamenn tekið við hótelherbergjum erindrekanna gegn mun lægra gjaldi.

Íbúatala Brussels hækkar verulega í miðri viku enda ófáir sem eiga erindi til borgar þar sem fjölmörgar alþjóðlegar stofnanir halda til. Gistirýmið sem þessir viðskiptaferðalangar skilja eftir sig á föstudögum er svo fyllt um helgar af túristum sem komast upp með að borga nokkuð lægra verð en er í boði á virkum dögum.

Með beinu flugi frá Keflavík til Brussel er tilvalið fyrir íslenska túrista að fara í stutta heimsókn til þessara fallegu borgar þar sem matgæðingar komast í feitt.

Hér eru fjögur hótel í Brussel þar sem verðið lækkar um helgar:

Pantone Hotel – Á hverji hæð hótelsins ræður einn Pantone litur ríkjum. Allt annað er hvítt. Þetta er því kannski ekki huggulegasta gistingin í bænum en hefur fallið í kramið hjá notendum Tripadvisor og víða fengið lofsamlega umfjöllun.

Föstudaga til sunnudaga er hægt að bóka sérstaka tilboðspakka þar sem morgunmatur og freyðivín fylgir með gistingunni. Tveggja manna herbergi kostar þá 109 evrur. Hotel Pantone er í skemmtilegu hverfi rétt fyrir utan miðbæinn.

The White Hotel – Hér er litagleðin lítil. Veggirnir, gólfin og húsgögnin því hvít líkt og nafnið gefur til kynna. Það er soldill spölur í miðbæinn frá hótelinu en auðvelt að taka sporvagn í bæinn. Hverfið í kringum hótelið er líka fjörugt með fullt af fínum kaffihúsum, sérverslunum og matsölustöðum og það er því algjör óþarfi að drífa sig beint í bæinn á morgnana.

Um helgar eru ódýrustu herbergin á 75 evrur, sem er þó nokkuð betri prís en er í boði á virkum dögum.

Hotel Bloom – Aftur er það hvítt en núna er litaleysið brotið upp með stórum freskum sem listnemar borgarinnar hafa málað á veggina. Herbergin eru að lágmarki 30 fermetrar og því engin hætta á að lenda í kústaskáp líkt og stundum vill gerast á breskum hótelum. Ódýrasta gistingin kostar 69 evrur um helgar. Fjölskylduherbergi kostar 89 evrur og þetta er því ekki galinn kostur fyrir þá sem vilja leyfa börnunum að smakka á krækling og frönskum á heimavelli þess réttar.

Vintage hotel – Þessi gististaður er mun litskrúðugari en hinir þrír. Gamaldags mubblur í öllum regnbogans litum og veggfóður með margskonar blæ gefa Vintage hotel sterkan karakter. Hótelið er líkt og Pantone Hotel og The White hotel í nágrenni við breiðgötuna Louise þar sem gaman er að rölta um og fá stemninguna í hverfinu beint í æð. Verðið er oft helmingi lægra um helgar en virku dagana eða frá 80 evrum á nótt.

NÝJAR GREINAR: Fimmtungs fjölgum gistinátta Íslendinga í Köben
TENGDAR GREINAR: Útpæld hótel á góðu verði

Mynd: Sven Laurent/Pantone Hotel