Komuleyfi mögulega 10 milljarða virði

Flugbrautirnar við Heathrow í London eru fullbókaðar. Komu- og brottfararleyfi eru því margra milljarða virði samkvæmt forstjóra flugvallarins. Icelandair á tvö leyfi.

Það er eftirsóknarvert að geta boðið upp á flug til Heathrow, stærsta flugvallar í Evrópu. Þar er þó ekki pláss fyrir fleiri þotur og ekki hægt að úthluta fleiri félögum aðstöðu. Komu- og brottfararleyfi á vellinum eru því mjög verðmæt. Haft er eftir forstjóra Heathrow, í frétt á heimasíðu The Independent, að dæmi eru um að leyfi hafi verið seld fyrir 25 milljónir punda milli flugfélaga. Það samsvarar tæplega fimm milljörðum íslenskra króna.

Leyfi Icelandair eru ekki til sölu

Tvisvar á dag lenda vélar Icelandair við Heathrow. Virði þessara tveggja komu- og brottfararleyfa félagsins í London gæti því verið nærri tíu milljarðar. Aðspurður um hvort það komi til greina að selja leyfin segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, það ekki vera til umræðu að gera breytingar á flugi til og frá Heathrow enda er það mikils virði fyrir leiðakerfi félagsins.