Skrifað í skýjunum

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian segist vera það fyrsta sem býður upp á frítt netsamband um borð í vélum sínum. Túristi prófaði þessa nýju þjónustu.

Vestanhafs hafa ferðamenn komist á netið um borð í flugvélum um árabil. Þó gegn greiðslu. Í Evrópu hefur gengið mun hægar að innleiða þessa þjónustu en nú býður hið norska Norwegian upp á frítt netsamband í nýjustu þotum sínum og fyrir árslok á allur flogflotinn að vera nettengdur.

Þegar þessar línur eru skrifaðar er útsendari Túrista um borð í vél Norwegian á leið frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar. Þegar vélin hafði náð 10.000 feta hæð tilkynnti flugfreyja að nú væri hægt að fara á netið. Til að byrja með var sambandið aðeins hægara en á jörðu niðri og sumar heimasíður tók lengri tíma að opna en vanalega. Það var þó ekkert mál að hringja vídeósamtal í gegnum Skype og ekki laust við að það hafi verið frekar óraunverulegt að eiga þannig samtal við einhvern á jörðu niðri. Myndbönd á YouTube birtast eðlilega.

Fyrstu kynni af þessari nýju þjónustu eru því góð og vonandi feta fleiri flugfélög í spor Norwegian fljótlega. Það mun þó sennilega vera bið eftir því að netsamband náist í háloftunum yfir Atlantshafinu. Því er ekki víst að þeir sem ferðast með Norwegian milli Oslóar og Keflavíkur í sumar geti lesið ferðagreinar Túrista alla leiðina.

NÝJAR GREINAR: Komuleyfi mögulega 10 milljarða virði
HOTELS.COM: Sértilboð á hótelum í Osló