Stundvísitölur: 19 af 20 brottförum Iceland Express á tíma

Brottfarartímar á Keflavíkurflugvelli stóðust langoftast á fyrri hluti mánaðarins. Frammistaða Iceland Express er mun betri en áður hefur mælst í stundvísitölum Túrista.

Stundvísi Iceland Express hefur batnað mikið eftir að fyrirtækið fækkaði áfangastöðum sínum niður í tvo. Síðustu tvær vikur seinkaði aðeins einni af þeim tuttugu ferðum sem félagið fór til London og Kaupmannahafnar.

Hjá Icelandair stóðust tímasetningar 89 prósent brottfara en komutímar í aðeins helmingi tilvika. Sjö af hverjum tíu flugum félagsins, til og frá Keflavík, voru því á tíma en hjá Iceland Express var hlutfallið 83 prósent í heildina.

Fjöldi flugferða á vegum félaganna tveggja er mjög misjafn því Icelandair flýgur um átta sinnum oftar en Iceland Express til og frá landinu þessar vikurnar.

Tafir á ferðum beggja fyrirtækja voru ekki miklar á tímabilinu eins og sjá má hér að neðan.

Stundvísitölur Túrista, 1. til 15. febrúar (í sviga eru niðurstöður seinni hluta janúar).

1. – 15. feb. Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma
Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma
Meðalbið alls
Icelandair 89% (85%) 6 mín (19 mín) 51% (65%) 9 mín (20 mín) 70% (75%) 8 mín (19 mín)
Iceland Express 95% (61%) 0,5 mín (15 mín) 71% (53%) 4 mín (12 mín) 83% (57%)

2 mín (14 mín)

Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar frá öllum seinkunum. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.

NÝJAR GREINAR: Borgar sig að fljúga á nóttunni?Borgin þar sem hótelin gefa afslátt um helgar
TENGDAR GREINAR: Stundvísitölur seinni hluta janúar

Mynd: Túristi