Toppurinn á Danmörku

Nokkrir af þekktustu listmálurum Dana gerðu strandlífinu við nyrsta bæ landsins góð skil undir lok nítjándu aldar. Allar götur síðan hafa sóldýrkendur og menningarvitar lagt leið sína þangað til að fá stemninguna á málverkunum beint í æð.

Ungar konur á kvöldgöngu við flæðamálið í sumarkjólum og fólk sitjandi við veisluborð í fallegum garði veittu Skagensmálurunum innblástur fyrir rúmri öld. Myndir þessa hóps listamanna hafa síðan verið meðal helstu dýrgripa frænda okkar og eru reglulega til sýnis á dönskum söfnum. Betri kynningu gæti ferðamannaiðnaðurinn í Skagen ekki fengið.

Fólk streymir því til þessa nyrsta bæjar landsins allt árið um kring. Þó mest á sumrin því hvergi í Danmörku eru sólarstundirnar fleiri en akkúrat þarna á toppi Jótlands. Enda var það þessi góða birta sem málaranir sóttu í ekki síður en landslagið.

Hvítar baðstrendur

Það er ekki á vísan að róa með veðrið í Danmörku en þó viðrar alla jafna nógu vel fyrir strandferðir flesta daga sumarsins. Sjórinn er nefnilega volgur og hitinn oftast yfir fimmtán gráðum. Þeir sem ferðast út á nyrsta tanga Jótlands ættu því að geta þvegið af sér ferðarykið á ströndinni áður en bænum sjálfum eru gerð góð skil. Heimsókn á safn bæjarins er til dæmis nauðsynleg því þar hanga uppi á veggjum mörg af þessum málverkum sem borið hafa hróður bæjarins svo víða.

Þrjú félög fljúga til Jótlands

Í sumar bjóða Icelandair, Iceland Express og Primera Air, í samstarfi við Heimsferðir, upp á flug til Billund á Jótlandi. Það er því hægðarleikur að heimsækja þetta eina fastaland Dana í sumarfríinu.

Þessi grein er skrifuð í samvinnu við:

 

 

 

TENGDAR GREINAR: Stærsta völundarhús í heimi og landsins bestu kartöflur
NÝJAR GREINAR: Betri samgöngur í Bergen

Myndir: Danmark Media Center