5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn

Hér ættu kaffiþyrstir túristar í Kaupmannahöfn að vera í góðum málum.

Í borg þar sem tvöfaldur espressó kostar um 500 íslenskar krónur og latte ekki undir 750 þá skiptir máli að velja kaffihúsin vel. Útsendari Túrista hefur þrætt stræti Kaupmannahafnar í mörg ár og hér eru þeir fimm staðir sem hann kemur á aftur og aftur. Staðirnir eiga það allir sammerkt að bjóða nær eingöngu upp kaffi og sætabrauð.

Við Ráðhústorgið

Risteriet – Hér er baunirnar ristaðar á staðnum og gestirnir sitja á barstólum við þrjú háborð og smakka á framleiðslu hússins. Þetta er látlaus staður þar sem fólk kemur til að fá skammtinn sinn og heldur svo ferðinni áfram. Risteriet er við Studiestræde 36 (hinn eina sanna Menntaveg) rétt ofan við Ráðhústorgið.

HÓTELTILBOÐ FYRIR TÚRISTA Í KÖBEN

Við Kóngsins nýjatorg

The Coffee Factory – Hér var boðið upp á besta kaffi bæjarins að mati lesenda Berlingske árið 2010. Staðurinn er við fjölfarna götu sem liggur út frá Kongens Nytorv. Við þennan miðpunkt Kaupmannahafnar er nóg framboð af dýru, meðalgóðu kaffi og því best að kíkja við á Gothersgade 21 vilji maður vera viss um að fá almennilega hressingu.

Á Norðurbrú

Superkaffeforsyningen – Íbúar Nørrebro er eiginlega ofdekraðir þegar kemur að kaffi enda mýmörg góð kaffihús í hverfinu. Við Møllegade 3, rétt við Assistens kirkjugarðinn þar sem H.C. Andersen og sennilega Jónas Hallgrímsson liggja, opnaði fyrir ári síðan lítill, huggulegur kaffistaður sem hefur unnið hug og hjörtu íbúanna. Hér er svarti drykkurinn allt í öllu en hægt að fá smá að maula með og morgunmat.

Við Nørreport lestarstöðina

Coffee Collective – Rétt við fjölförnustu lestarstöð borgarinnar standa Torvehallerne, nýr matarmarkaður borgarinnar. Besta kaffið á þessum vel lukkaða markaði er á Coffee Collective (við Vendersgade). Eigendurnir hafa sjálfir keypt baunirnar beint af bónda. Kaffið er því mönnum hér mikil alvara og líka þeim Íslendingum sem vinna þarna. Coffee Collective er einnig að finna við Jægerborggade 10 á Norðurbrú.

Í Christianshavn

Sweat Treat – Þar sem aðalkokkur Noma, besta veitingastaðar í heimi, kaupir kaffið sitt þar er þyrstum ferðamönnum óhætt. Ekki skemmir heldur fyrir að Skt Annæ gade er ein krúttlegasta gata Kaupmannahafnar og því tilvalið að sitja úti með veitingarnar. Sweet Treat serverar líka mjög gott ískaffi á sumrin sem kostar reyndar hátt í þúsund íslenskar.

TENGDAR GREINAR: Gott kaffi í Gautaborg