Borgirnar þar sem leigubílstjórar svindla

Heiðarleiki evrópskra leigubílstjóra var nýverið kannaður. Í flestum borgum stóðu þeir sig vel en annars staðar er of oft maðkur í mysunni.

Að komast á leiðarenda í ókunnugri borg, með almenningssamgöngum, krefst mun meira af okkur en að setjast upp í leigubíl og vera keyrð upp að dyrum. Seinni kosturinn er líka mun dýrari. Reyndar of dýr því samkvæmt nýrri könnun eru þriðjungs líkur á að svindlað verði á farþeganum. Ástæðan er einfaldlega sú að bílstjórar nýta sér sakleysi ferðamanna og fara lengri leiðina á áfangastað. Þetta sýna að minnsta kosti niðurstöður athugunar þar sem heiðarleiki leigubílstjóra í tuttugu og tveimur evrópskum borgum var kannaður.

Helmingslíkur á að vera snuðaður í Slóveníu

Alls voru farnir 220 túrar í þessari prófun og í 82 tilfellum valdi bílstjórinn löngu, dýru leiðina. Sumstaðar reyndu þeir líka að bæta við aukagjöldum eins og fartölvugjaldi uppá 10 evrur (um 160 kr) samkvæmt frétt Politiken.

Eins og sjá má á upptalningunni hér að neðan þá stóðu bílstjóranir sig misvel í borgunum tuttugu og tveimur en allra verst var frammistaðan í Lublíjana, höfuðborg Slóveníu, þar sem nærri helmingur ferðanna voru of langar. Reykjavik var ekki með í könnuninni.

Tölurnar í sviga sýna hlutfall ferða þar sem ekki var svindlað:

Góð frammistaða: Barcelona (85%), Munchen (83%), Köln (82%), Mílanó (81%), Berlín (81%), París (81%), Lissabon (81%).
Viðunandi: Salzburg (79%), Osló (79%), Rotterdam (78%), Hamborg (77%), Genf (74%), Brussel (73)%, Zagreb (73%), Zurich (73%)
Léleg: Madríd (70%), Prag (68%), Vínarborg (68%), Amsterdam (67%), Luxemburg (67%), Róm (66%).
Mjög léleg: Lublijana (53%).

NÝJAR GREINAR: Mun ódýrara að fljúga í júní en apríl
TENGDAR GREINAR: 10 ferðamannastaðir í útrýmingarhættu

Mynd: Shark Attacks/Creative Commons