Bratta borgin

Íbúar Lissabon eru vanari að ganga í halla en á jafnsléttu. Það eru þó ekki bara brekkurnar sem hægja á göngu ferðamanna. Fjölbreytileg hús, forvitnilegar hliðargötur og vel varðveittar verslanir og kaffihús kalla á athygli aðkomumannsins. Ekki má heldur flýta sér um of í borg þar sem hitamælirinn sýnir alla jafna tölur sem eru langt yfir íslenskum hitametum.

Þeir standa spenntir ferðamennirnir við stoppistöðvar sporvagns númer 28 í Biarro Alto hverfinu í höfuðborg Portúgals. Ferðinni er heitið niður brattar brekkur eftir mjóum götum og upp í hæðirnar hinum megin í borginni. Þar sem Alfama hverfið er. Ferðalagið minnir soldið á barnarússibana í tívolí. Vagninn fer á fleygiferð niður brekkurnar en hægir svo snögglega á sér þegar fara á upp í mót. Í snörpustu beygjunum ískrar í öllu. Vinsældir þessarar leiðar meðal túrista eru þó ekki bara rússibanareiðinni að þakka. Sjarmi borgarinnar liggur nefnilega einna helst í hlíðum þessara tveggja hverfa sem vagninn keyrir á milli.

Gamla hverfið

Byggðin í Alfama hefur staðið af sér stóra skjálfta sem jafnað hafa aðra hluta borgarinnar við jörðu. Margar af elstu byggingum borgarinnar er því þar að finna, til dæmis kastala Sao Jorge en ofan úr honum er útsýnið yfir borgina óviðjafnanlegt. Í gömlu húsunum er svo ógrynni af huggulegum kaffihúsum og matsölustöðum þar sem hlaða má batteríin. Áhugafólk um kirkjur fær líka nóg fyrir sinn snúð í Alfama því þar er dómkirkja borgarbúa og fleiri sem eru heimsóknarinnar virði, t.d. Santa Engracia.

Það er líka nauðsynlegt að gefa sér tíma í að rölta í rólegheitum um hverfið, stoppa í þröngu götunum og virða fyrir sér þessi fallegu híbýli sem sum hver þurfa á handlögnum eigendum að halda.

Blús í borginni

Í Biarro Alto er stemningin svipuð nema þar eru færri sögufrægar byggingar en fleiri veitingastaðir, barir, kaffihús og verslanir. Heimamenn eru líka meira áberandi á götunum þar en í Alfama. Sérstaklega er líf og fjör á götum Biarro Alto eftir að sólin sest. Þá hljómar víða hin harmþrungna þjóðartónlist Portúgala, Fado. Enda er þessi blús sunginn undir borðum á mörgum veitingastöðum og söngvarar troða upp á krám og tónleikastöðum langt fram eftir nóttu.

Þó Lissabon sé ekki ýkja stór þá hefur hún upp á meira að bjóða en bara þessi tvo gömlu hverfi. Þeir sem ætla að heimsækja borgina ættu því að gefa sér nokkra daga.

Mynd: Túristi