Emil stækkar við sig

Á næsta ári eru fimmtíu ár liðin frá því að fyrsta bókin um Emil í Kattholti kom út. Af því tilefni verður opnað nýtt og ennþá stærra Kattholt í Astrid Lindgren skemmtigarðinum.

Sögurnar af óþekktaranganum Emil í Kattholti eru löngu orðnar sígildar. Í sænska bænum Vimmerby er að finna skemmtigarð þar sem persónur úr sögum Astrid Lindgren, eins ástsælasta barnabókahöfunds allra tíma, eru aðalnúmerin. Lína Langsokkur, Ronja Ræningjadóttir, Kalli á þakinu og auðvitað Emil troða þar upp reglulega og gestir garðsins geta virt fyrir sér sögusvið bókanna.

Nú ætla forsvarsmenn garðsins að gera Kattholti og Smálöndunum enn hærra undir höfði og verða 95 milljónir sænskra króna, tæpir tveir milljarðar íslenskra, settir í að endurbyggja heimkynni Emils og sveitina í kring.

Herlegheitin verða opnuð á næsta ári en þá er hálf öld liðin frá því að fyrsta sagan af Emil kom út.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir – Stokkhólmur
NÝJAR GREINAR: Villta norðvestrið

Mynd: Astrid Lindgren Värld