Ferðaminningar Einars Scheving

einar sch

Jazzband á leið í tónleikaferð án vegabréfa, góð máltíð í Róm, fótleggur í gifsi á sundlaugarbakka og bragðið af spænskri kókómjólk er meðal þess sem Einar Scheving tónlistarmaður minnist úr utanlandsferðum sínum. Einar fékk nýverið sérstaka viðurkenningu á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir plötuna Land míns föður.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Það var líklega sólarlandaferð til annað hvort Costa Del Sol eða Mallorca. Þetta eru mjög óljósar minningar enda var ég mjög ungur þegar fjölskyldan fór að fara nokkuð reglulega til Spánar. Mér þykir því alltaf vænt um Spán. Einhverra hluta vegna er mér einna minnistæðast bragðið af kókómjólkinni þeirra sem maður drakk í tíma og ótíma

Best heppnaða utanlandsferðin:

Það var ekki amalegt þegar við frúin fengum pössum fyrir börnin fjögur og flúðum í nokkra daga til Rómar. Í stuttu máli sagt varð ég gjörsamlega heillaður af borginni.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Tólf ára gamall í sólarlandaferð með foreldrum mínum í gifsi sem náði frá ökkla upp í nára. Það var vægast sagt kvalræði að horfa á alla krakkana í vatnsrennibrautum og fleira án þess að geta tekið þátt. Svo þegar gipsið var tekið þá var fótleggurinn auðvitað skjannahvítur og visinn.

Tek alltaf með í fríið:

Í það minnsta passa og peninga.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Man ekki eftir neinu sérstöku í útlöndum. Hins vegar man ég eftir einu spaugilegu atviki í Leifsstöð þegar ég var á leiðinni á tónleikaferðalag með jazzbandi nokkru fyrir ca. tuttugu árum síðan. Þegar við vorum að innrita okkur fattaði ég að ég hafði gleymt passanum mínum heima. Þar sem ég var langyngstur í bandinu var ég húðskammaður af félögum mínum fyrir kæruleysið, sérstaklega af einum sem fattaði skömmu síðar að hann var sjálfur með útrunninn passa. Nú voru góð ráð dýr þar sem helmingur bandsins var passalaus. Til að bæta gráu ofan á svart þá var sunnudagur og lokað bæði hjá sýslumanninum í Keflavík og á ljósmyndastofu bæjarins. En með því að hringja í einhverja vel tengda aðila þá tókst okkur að ræsa út fólk á báðum stöðum, fengum nýja passa og rétt náðum vélinni.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Osso Bucco-ið á Di Rienzo við Piazza della Rotonda í Róm. Þótt torgið sé krökt af túristum, þá var ansi magnað að sitja við hliðina á Pantheon með fullt tungl í augsýn.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Róm

Draumafríið:

Ég á svo margt eftir, t.d. gæti ég vel hugsað mér að fara til Miðausturlanda, sér í lagi Egyptalands. Ég færi heldur ekkert í fýlu ef mér byðist að sigla um Miðjarðarhafið. Annars er hvaða frí með fjölskyldunni draumafrí.