Icelandair umsvifamikið í Kaupmannahöfn

Farþegum Icelandair til og frá Kaupmannahöfn fjölgaði um 24 þúsund á síðasta ári. Félagið hefur aukið markaðshlutdeild sína á flugleiðinni milli dönsku höfuðborgarinnar og Keflavíkur töluvert síðustu ár á kostnað Iceland Express.

Aðeins ellefu flugfélög flytja fleiri farþega til og frá Kaupmannahafnarflugvelli en Icelandair gerir. Aukningin á milli síðustu tveggja ára nemur tæplega tíund samkvæmt tölum danska ferðablaðsins Stand by yfir umsvifamestu fyrirtækin á stærsta flugvelli Danmerkur.

Á síðasta ári voru farþegar íslenska félagsins, á þessari flugleið, 273 þúsund talsins. Það jafngildir því að einn af hverjum hundrað farþegum sem fer um Kastrup er á vegum Icelandair. SAS er langstærsta félagið í Kaupmannahöfn því fjórir af hverjum tíu farþegum á flugvellinum eiga pantað far með því. Lággjaldaflugfélögin Norwegian og Cimber Sterling koma í næstu sætum. Alls eru fyrirtækin um sextíu talsins sem halda uppi millilandsflugi frá höfuðborg Danmerkur.

Sveiflur á heimamarkaði

Hátt í 380 þúsund manns ferðuðust milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar á síðasta ári samkvæmt upplýsingum Túrista hjá danska flugvellinum. Þetta er aukning upp á rúmlega ellefu af hundraði frá árinu á undan. Sjötíu og tvö prósent farþeganna fóru með vélum Icelandair en afgangurinn með Iceland Express því fyrirtækin tvö sitja ein að þessari flugleið. Síðarnefnda félagið hefur því misst nokkuð af markaðshlutdeild sinni því hún var 35 til 40 prósent árið 2004 samkvæmt því sem segir í fimm ára gömlu erindi fyrirtækisins til íslenskra samkeppnisyfirvalda. Nýrri tölur um skiptinguna milli fyrirtækjanna á þessari flugleið eru ekki opinberar en samkeppnin á henni mun aukast í sumar með tilkomu WOW air.

TENGDAR GREINAR: Keflavík tíundi vinsælasti áfangastaðurinn frá Kaupmannahöfn –  Komuleyfi Icelandair í London mögulega virði 10 milljarða króna
NÝJAR GREINAR: 5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn –  Dýrt að nota hraðbanka í útlöndum

Mynd: Cph.dk