Kapphlaupið um Köln

Þrjú fyrirtæki ætla að bjóða upp á flug héðan til Kölnar í Þýskalandi í sumar. WOW air hefur brugðist við aukinni samkeppninni með því að fjölga ódýrum sætum og lækka verð.

Í síðustu viku tilkynntu forsvarsmenn Iceland Express að þeir ætluðu að etja kappi við WOW air og þýska lággjaldaflugfélagið German Wings um hylli farþega á leið milli Keflavíkur og Kölnar í sumar. Félögin munu öll fljúga þessa leið tvisvar í viku. Þýska félagið hefur undanfarin fjögur sumur setið eitt að flugleiðinni en Köln hefur verið hluti að sumaráætlun WOW air síðan hún var opinberuð í nóvember síðastliðnum.

WOW lækkar verð

Í verðkönnun Túrista í síðasta mánuði kom í ljós að German Wings bauð upp á ódýrari fargjöld en WOW air frá Keflavík til Kölnar í júlí. Þá hafði Iceland Express ekki blandað sér í baráttuna. Núna hefur WOW air hins vegar lækkað sín verð yfir hásumarið en farið hjá þýska félaginu hefur hækkað á sama tíma samkvæmt lauslegri athugun Túrista. Aðspurður um þessar verðbreytingar segir Valgeir Bjarnason hjá WOW air að félagið hafi aukið framboð á ódýrum sætum og lækkað verð á nokkrum dagsetningum til að bregðast við aukinni samkeppni.

Eftir verðlækkanirnar er ódýrasta farið til Kölnar í júlí að finna hjá WOW air. Kostar það um sextán þúsund, aðra leiðina. Lækkun á lægsta verði félagsins í júlí nemur um ellefu þúsund krónum frá því fyrir fjórum vikum síðan. Besta verð Iceland Express er tæpar 20 þúsund krónur og ódýrasta fargjaldið í júlí hjá German Wings er á rúmar 24 þúsund sem er hækkun um tíund frá könnuninni í síðasta mánuði. Þýska félagið rukkar aukalega 1500 krónur fyrir innritaðan farangur.

Þjóðverjanir óhræddir

Andreas Engel, talsmaður German Wings, segir fyrirtækið vera vant harðri samkeppni og verðlagningin muni ekki breytast þó íslensku félögin bjóði lægri fargjöld um þessar mundir. Hann segir bókunarstöðuna á Íslandsflugi German Wings vera góða og um þriðjungur farþega komi frá Íslandi.

German Wings býður aðeins upp á næturflug frá Keflavík en íslensku félögin fljúga frá Keflavík seinnipartinn, WOW air milli fjögur og fimm en Iceland Express rétt fyrir klukkan 18.

TENGDAR GREINAR: Borgar sig að fljúga á nóttunni
NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Einars SchevingÞað er dýrt að nota hraðbanka í útlöndum

Mynd: Germany.travel