Ferðir Iceland Express eru nær undantekningarlaust á tíma eftir að fyrirtækið hóf samstarf við nýtt flugfélag og fækkaði áfangastöðum.
Síðustu sex vikur hefur aðeins þremur brottförum Iceland Express frá Keflavík seinkað. Komur til landsins eru líka langoftast á tíma. Þetta er mikil breyting frá síðasta sumri þegar vel innan við helmingur ferða fyrirtækisins hélt áætlun samkvæmt stundvísitölum Túrista.
Þá voru ferðir Iceland Express um hundrað og fimmtíu á viku en eru nú tæplega tuttugu. Það er því mikill munur á umsvifunum. Frá síðasta sumri hefur sú breyting átt sér stað að annað flugfélag sér nú um farþegaflutninga Iceland Express.
Brottfarir mun oftar á tíma
Hjá Icelandair er það áfram þannig að ferðir til útlanda eru nær alltaf á tíma en komur til landsins tefjast oftar. Á fyrrihluta þessa mánaðar komu sex af hverjum tíu vélum á tíma til Keflavíkur en 87 prósent fóru þaðan samkvæmt áætlun. Þetta er sama mynstur og verið hefur síðustu vikur hjá félaginu. Á fyrri helmingi þessa mánaðar voru ferðir Icelandair, til og frá landinu, um tíu sinnum fleiri en Iceland Express.
Í sumar mun Iceland Express bjóða upp á ferðir til átján flugvalla í Evrópu og þá kemur í ljós hvort ástandið síðasta sumar heyri sögunni til. En líkt og sjá má á töflunni hér að neðan þá þurfa farþegar fyrirtækisins ekkert að bíða þessar vikurnar.
Stundvísitölur Túrista, 1. til 15. mars (í sviga eru niðurstöður seinni hluta febrúar).
1. – 15. mar. | Hlutfall brottfara á tíma | Meðalseinkun brottfara | Hlutfall koma á tíma |
Meðalseinkun koma | Hlutfall ferða á tíma |
Meðalbið alls |
Icelandair | 87% (89%) | 4 mín (2 mín) | 61% (52%) | 8 mín (8 mín) | 74% (71%) | 6 mín (5 mín) |
Iceland Express | 94% (95%) | 1 mín (1 mín) | 95% (63%) | 0 mín (5 mín) | 95% (80%) |
0,5 mín (3 mín) |
Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar frá öllum seinkunum. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.
Fylgstu með Túrista á Facebook og þú gætir unnið gistingu á hóteli í Kaupmannahöfn. Smelltu hér.
NÝJAR GREINAR: Tjaldferð til Jótlands
TENGDAR GREINAR: Stundvísitölur seinni hluta febrúar – Icelandair umsvifamikið í Kaupmannahöfn
Mynd: Túristi