Það er dýrt að nota hraðbanka í útlöndum

Það getur kostað allt að 1500 krónum meira að taka út 300 evrur í erlendum hraðbanka en í útibúi hér heima. Þeir ferðamenn sem sækja sér reglulega skotsilfur í útlöndum gætu aukið kostnað utanlandsferðarinnar um tugi þúsunda.

Þú borgar að lágmarki 440 til 675 krónur fyrir að nota erlendan hraðbanka með íslensku kreditkorti. Fari úttektin yfir 15 til 25 þúsund krónur hækkar þóknunin og nemur þá 2,5 til 4,5 prósent af upphæðinni. Kjörin ráðast af tegund kortsins og viðskiptabankanum.

Ferðamaður með Mastercard eða Visa sem tekur út fimmtíu þúsund krónur, í erlendri mynt, borgar 1250 krónur í þóknun. Sá sem er með American Express borgar 2250 krónur enda er gjaldið 4,5 prósent á því korti.

Hver vill borga 4000 fyrir 3300 krónur?

Þegar gjaldeyrir er keyptur í útibúi hér á landi þarf að greiða fyrir hann samkvæmt seðlagengi bankans. Það er einu til tveimur prósentum hærra en almenna gengið. Kortagengið er álíka hátt og seðlagengið. Munurinn á að borga með reiðufé eða korti í útlöndum er því lítill.

En eins og dæmið hér að ofan sýnir þá er það þóknunin fyrir að taka út í hraðbanka sem getur reynst ferðamönnum kostnaðarsöm. Við hana bætist einnig gjald sem eigandi hraðbankans leggur ofan á. Sá sem sækir sér reiðufé nokkrum sinnum á meðan á dvölinni í útlöndum stendur eyðir því mörgum þúsundum króna, jafnvel tugþúsundum, í þóknanir.

Þar sem lágmarksþóknun banka og kreditkortafyrirtækja hér á landi er oftast tæplega 700 krónur þá borgar það sig ekki að taka út lágar upphæðir. Til dæmis yrði korthafi sem tæki út 20 evrur (um 3300 krónur) að borga þessa lágmarksþóknun. Hann borgar því 4000 krónur fyrir 3300 króna úttekt. Það eru ekki góð kaup.

Debetkort ódýrari kostur

Langflestum þykir vafalítið óþægilegt að ganga um með mikið reiðufé á sér. Sérstaklega í útlöndum. Skynsamlegast leiðin er því líklega að nota kort á veitingastöðum og verslunum en reiðufé til alls annars. Hins vegar verður að hafa í huga að í sumum löndum, t.d. í Danmörku bæta veitingamenn kortagjaldinu ofan á reikning þeirra sem borga með plasti.

Ef það skapast þörf fyrir meira reiðufé þá er ódýrara að nota debetkort en kreditkort í hraðbönkum úti því þóknunin á þeim er um einu prósenti lægri. Kortagengið er hins vegar það sama fyrir þessar tvær tegundir greiðslukorta.

NÝJAR GREINAR: 5 góð kaffihús í Kaupmannahöfn

Mynd: Túristi