Á að gefa betlurum?

Það skiptir nánast engu máli hvert við ferðumst. Víðast hvar verða á vegi okkar ólánsamt fólk sem biður um ölmusu. En gerum við þeim greiða með því að láta eitthvað af hendi rakna?

Blessunarlega er betlarar sjaldséðir á Íslandi. Við erum því ekki vön að þurfa að taka afstöðu þegar fátækt fólk biður okkur um pening út á götu. Hins vegar komumst við ekki hjá því að þurfa að gera upp hug okkar gagnvart betlurum þegar við ferðumst. Bæði þegar ferðinni er heitið til nágrannalandanna og þegar við förum um fjarlæg lönd þar sem fátækt er landlæg.

Túristi bað tvo menn, sem þekkja til þessara mála, að gefa ferðamönnum góð ráð um hvað þeir ættu að gera þegar betlari biður þá um peninga.

Bjarni Gíslason, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, er fæddur í Eþíópíu og hef búið þar í 18 ár, 10 ár sem barn og tæp átta sem fullorðinn. Hann starfaði sem kennari í Addis Abeba í 5 ár og þar er mjög mikið af betlurum og mikil eymd í bland við ríkidæmi.

„Ég ráðlegg ferðamönnum að gefa ekki peninga til fólks sem biður um pening. Í fyrsta lagi er gott að gefa það sem kostar ekki neitt en gleður alla, bros, hlýleika og samkennd. Að spjalla og hlusta, klappa barni eða taka í hönd fólks sem leitar aðstoðar. Sýna fram á að við erum ekki sjálfhverfir ríkir ferðamenn heldur manneskjur sem viljum öðrum vel. Síðan er betra að gefa t.d. brauð eða ávöxt. Nú eða einhvern hlut sem getur verið gagnlegur, blýanta eða penna, eða eitthvað slíkt smálegt. En þar sem margir betlarar eru er aldrei hægt að gefa öllum og þá er það jákvætt og hlýtt viðmót sem skiptir mestu máli.

Ef menn hafa tækifæri til er miklu betra að styðja innlend samtök. Til dæmis þau sem eru með matarstöðvar þar sem fólk getur fengið mat eða samtök sem eru með starf sem beinist að götubörnum. Þá getur maður sagt „ég get ekki gefið þér pening en ég styð þessi samtök farðu til þeirra“. Þar sem ég þekki til í Addis Abeba er hægt að kaupa matarmiða sem fólk getur notað til að fá að borða í matarstöðvum í borginni. Það var gott að geta rétt sumum slíka miða. Þeir sem afþakka  mat eða litla hluti eru ef til vill ekki eins illa staddir og þeir vilja láta í veðri vaka. Allavega er betra að gefa innlendum samtökum sem vinna faglegt starf sem miðar að því að koma fólki af götunni í skóla eða störf.“

Viktor Heithdal Sveinsson er framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Óríental sem er sérhæfð í ferðum Íslendinga um Asíu. Viktor hefur búið í Taílandi um árabil.

„Það er auðvelt að finna til samkenndar með þeim sem augljóslega eiga bágt. Það er líka stór þáttur í okkar kristilega uppeldi að hjálpa náunganum. En stundum þyrmir yfir okkur. Þá fer öll þessi eymd að fara í taugarnar á okkur og maður gæfi næstum því hvaða upphæð sem væri fyrir að þurfa aldrei að sjá betlara framar.
Sumir betlarar eru í fullu starfi við þessa iðju og það amar ekkert að þeim. Margar ungar mæður ná sér í aukapening með því að betla fyrir einhvern betlikónginn, sem hirðir nær allan afrakstur dagsins. En vissulega er stundum full ástæða til að rétta hjálparhönd. Ég gef ef það hvarflar að mér og leyfi betlaranum að njóta vafans um hvort það sé gott eða slæmt.“

Túristi spyr að lokum: Hvað gerir þú þegar betlari verður á vegi þínum í útlöndum? Gefurðu alltaf, oftast, sjaldan eða aldrei? Vinsamlegast svaraðu hér til hægri.

NÝJAR GREINAR: Villta norðvestriðBorgirnar þar sem leigubílstjórar svindla

Mynd: gr33ndata/Creative Commons