Á heimavelli: Kristín í París

Kristín Jónsdóttir hefur búið í París í rúm tuttugu ár. Hún hefur í áratug rekið vefinn Parísardaman og býður upp á gönguferðir um borgina. Hér gefur hún nokkrar hugmyndir að góðum stundum í París.

Rómantískt kvöld

Uppskrift að góðu kvöldi getur til dæmis verið að fara snemma út að borða einhvers staðar í nágrenni Pont Neuf-brúarinnar. Ég get til dæmis mælt með Le chien qui fume sem er hefbundinn franskur staður. Þaðan er svo stutt að ganga að fyrrnefndri brú, og fara niður að bökkunum þar sem bronsstytta af Hinriki IV á hestbaki trónir og taka klukkustundarlanga siglingu með Les Vedettes du Pont Neuf. Brýrnar eru allar fallega upplýstar, sem og helstu byggingar meðfram ánni. Athugið að síðasta brottför er kl. 22:30.

Sætur eftirmiðdagur

Kökur úr góðu bakaríi eru þess virði að smakka. Upplagt er að fara og velja sér eina af þessum girnilegu djásnum og gæða sér á þeim úti í garði eða á næsta kaffihúsi. Þá þarf að biðja þjóninn um leyfi, því auðvitað er ekki sjálfsagt mál að koma með nesti. Þeir sem eru forsjálir geta verið með servíettur, diska og glös í farangrinum og jafnvel komið við í vínbúð eftir kaldri kampavínsflösku. Makkarónukökur eru vinsælar þessa dagana en fylgið innsæinu og prófið jarðarberjatertu (fraisier), svartaskógarköku (forêt noire) eða hvað sem fangar augu ykkar við kökukælinn.

Það er vitanlega hægt að bíða í röðinni hjá Ladurée, eða koma við í fínustu matvörubúðinni Fauchon við Place de la Madeleine, en í París úir og grúir af fallegum og góðum bakaríum, hér er t.d. ein ábending:

Gérard Mulot, 6, rue Pas de la Mule, 75004 París. – örskammt frá Place des Vosges, þar sem hægt er að setjast í grasið, eða á bekk í skugga trjánna.

Ókeypis

París er sannarlega ein af fegurstu borgum í heimi. Ég mæli með því að fara á Pont des Arts við sólarlag. Þaðan er fallegt útsýni til allra átta. Í austri trónir Notre Dame á Borgarey, Ile de la Cité, og elsta steinbrúin, Pont Neuf, nýtur sín vel. Til vesturs liggur Louvre-höllin við Signubakka og himininn getur orðið ansi fallegur ef skilyrði eru hagstæð.

Göngugötur og stemning

Það er ekki mikið af göngugötum í París, en Montorgueil hverfið í 1. hverfi, norðan við Les Halles, var tekið í gegn fyrir nokkrum árum og lokað fyrir bílaumferð að mestu. Rue Montorgueil er yndisleg gata, þar skiptast á lifandi kaffihús, matsölustaðir og sælkerabúðir. Mannlífið er skrautleg blanda af gamla fólkinu sem hefur alltaf búið þarna og yngri nýríkum íbúum, í bland við alls konar fólk sem sækir vinnu eða kemur að versla í hverfinu. Fordrykkur á kaffihúsi upp úr fimm er góð leið til að uppgötva fjölbreytta mannlífsflóru Parísar.

Aðrar lifandi götur: Rue des Rosiers í 4. hverfi og Rue Mouffetard í 5. hverfi.

Cluny safnið

Miðaldasafn Parísar, Musée de Cluny, er eitt af þessum smáu þægilegu söfnum sem eru góð fyrir þá sem geta ekki hugsað sér yfirþyrmandi risasöfn á borð við Louvre. Perla safnsins er veggteppaserían Ungfrúin og einhyrningurinn, sem Tracy Chevalier hefur nýtt sér sem innblástur í skáldsögu (sú sem skrifaði um málverkið Stúlka með perlueyrnalokk).

Teppin sýna samskipti einhyrnings og ungrar stúlku sem hann kennir að þekkja skilningarvitin fimm. Þau er hægt að túlka á erótískan hátt og hafa því náð heimsfrægð. Hér má til dæmis lesa um þau, á ensku.

Smellið hér til að heimsækja vef Parísardömunnar.

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Teits Þorkelssonar

Mynd: Benni Valsson