Besti veit­inga­staður Norð­ur­landa

Besti veit­inga­staður í heimi er í Kaup­manna­höfn en á Jótlandi er sá sem þykir skara fram úr á Norð­ur­löndum. Enn eitt dæmi um að gerð vinsældal­ista er ekki vísindaleg en breytir engu fyrir áhuga­fólk um góðan mat.

Það er margra mánaða bið eftir borði á besta veit­inga­stað í heimi, Noma í Kaup­manna­höfn. Konungs­fjöl­skyldan er ekki einu sinni tekinn fram­fyrir röð sem er óvenju­legt í landi frænda okkar þar sem Margrét Þórhildur og hennar fólk getur alla jafna gengið að bestu bitunum.

En kannski er Noma ekki endi­lega sá besti í heimi því á Jótlandi er að finna Henne Kirkeby Kro, huggu­lega sveitakrá, sem nýlega var kjörinn besti veit­inga­staður Norð­ur­landa. Kokkar kráar­innar þykja standa sig betur en koll­egar þeirra á Noma og hinum Michelin stöð­unum í Kaup­manna­höfn. Að minnsta kosti að mati samtaka norræna sælkera sem veittu verð­launin.

Fiskur og græn­meti

Það ríkir ekki hefð­bundin kráar­stemmning á Henne Kirkeby Kro. Þetta er nefni­lega alvöru veit­inga­staður þar sem helstu matreiðslu­menn Danmerkur standa við elda­vélar og útbúa rétti sem oftar en ekki eru settir saman úr hráefni úr nágrenninu. Sjáv­ar­fang frá strand­bæj­unum við vest­ur­hafið er til dæmis áber­andi á matseðl­inum og græn­meti úr sveit­inni.

Í hádeginu kosta aðal­rétt­irnir frá tæpum tvö hundruð dönskum krónum (rúmar 4000 íslenskar) og þriggja rétta hádeg­is­matur er á 345 danskar (rúmar 7000 íslenskar). Á kvöldin stendur valið á milli 550 króna matseðils eða 875 króna (tæpar 20.000 íslenskar).

Lagt sig eftir matinn

Eftir gest­irnir hafa borðað nægju sína af dönsku góðgæti þá eiga þeir þess kost að halla sér á einu af fimm gesta­her­bergjum hússins. Þar er aðstaðan fyrsta flokks og kostar herbergið frá tæpum tvö þúsund dönskum (um 45.000 íslenskar).

þeir sem vilja gera sérstak­lega vel við sig panta því bedda og borð þegar stefnan hefur verið sett á þetta fallega sveit­býli á vest­ur­strönd Jótlands. Og það borgar sig að panta í tíma þó vissu­lega séu sætin á Henne Kirkeby Kro ekki eins umsetin og þau hjá Noma.

TENGDAR GREINAR: Villta norð­vestrið
KÍKTU Í FRÍVERSLUN TÚRISTA

Myndir: Henne Kirkeby Kro

Þessi grein er skrifuð í samvinnu við: