Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Óskars Axelssonar

Kvikmyndaleikstjórinn Óskar Axelsson komst í hann krappann í París en ferðaðist um Ísrael og Palestínu án vandræða. Hann hefur farið víða og leggur áherslu á að borða að hætti heimamanna hvar sem hann kemur.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég fór til Mæjorka tveggja ára en man svo sem ekki mikið eftir því. Við fjölskyldan fórum þangað á hverju ári þegar ég var lítill og fyrstu ferðaminningarnar eru sannarlega þaðan.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Ég hugsa að það hafi verið ferð okkar Huldu, konunnar minnar, til Ísrael og Palestínu. Sú ferð var æðislega vel lukkuð að öllu leyti. Við gistum ýmist á hótelum eða hjá fólki sem tengdust ísraelskum vinum okkar í New York, þar sem við bjuggum á þessum tíma.
Vorum m.a. í nokkra daga í Kibbutz sem staðsett er í Negev eyðimörkinni.
Saga þessa landsvæðis er náttúrulega svo ótrúlega mikilvæg og það er fátt sem jafnast á við að ráfa um innan múra hinnar gömlu Jerúsalem. Þá er Tel Aviv hreint stórskemmtileg og afslöppuð strandborg, minnti mig einna helst á Barcelona, bara minni. Og tilfinningin að fljóta um í Dauðahafinu er eitthvað sem erfitt er að lýsa með orðum.
Við höfðum lesið okkur mikið til um margþætta sögu landsins og vorum ágætlega að okkur í stöðu mála í deilum Ísraela og Palestínu, eða „the conflict“ eins og þeir sjálfir kalla það. Og hvert sem við komum voru allir mjög áhugasamir um að ræða um deiluna og allir sem við hittum vildu segja okkur frá sínum sjónarmiðum. Við ferðuðumst vítt og breitt um landið. Fórum m.a. til Hebron í Palestínu en miðbærinn þar er hreinlega í herkví Ísraela sökum þess að nokkur hundruð bókstafstrúar gyðingar, flestir nýlega fluttir til Ísrael frá Brooklyn, ákváðu fyrir nokkrum árum að ryðjast þar inn í nokkrar byggingar, hertaka þær og byggja sér svo heimili ofan á byggingarnar. Maður upplifði sig eins og í miðju stríði þarna í miðbænum, en fyrir utan hann iðaði allt af lífi og fjöri.
Það var annars magnað að upplifa, bæði í Ísrael en þó auðvitað miklu meira í Palestínu, hvað fólk var í senn hissa og þakklátt fyrir að við hjónin vorum bara þarna á eigin vegum í fríi. En flestir sem heimsækja þetta umdeilda landsvæði hafa einhverja aðra ástæðu en hreinræktaðan túrisma.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Ætli það sé ekki ferðalag okkar hjóna til Portúgal fyrir nokkrum árum. Við vorum að fara í brúðkaup vina okkar. Brottför frá New York á afmælisdaginn minn og okkur tókst að missa af flugvélinni út af því að þáverandi úrið mitt, sem átti víst að vera beintengt gervihnöttum og því rosalega nákvæmt, ákvað að vanstillast eitthvað. Úrið endaði í ruslafötu á JFK og við enduðum heima á meðan farangurinn okkar fór sem leið lá til Lissabon í gegnum Dublin. Við flugum svo daginn eftir þannig að við náðum alla vega brúðkaupinu, þó töskurnar, með smókingnum og kjólnum, hafi tekið yfir viku að skila sér og setti það heilmikið strik í reikninginn það sem eftir lifði frísins í Portúgal.

Tek alltaf með í fríið:
Ég fer hvergi án þess að „lesgleraugun“ (sjá hér) séu með í för. Hjálpa mér að sofna á hverju einasta kvöldi, án þess að ég fái hálsríg!

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Líklega þegar reynt var að ræna mig í París, rétt hjá Gare du Nord lestarstöðinni fyrir all mörgum árum. Ég var á Interrail ferðalagi með félaga mínum og kannski eittvað kærulaus í fasi. Tveir gaurar plötuðu mig og áður en varði var annar þeirra kominn með veskið mitt í hendur. Mér brá svakalega. Lét öllum illum látum, öskrandi á þá alls kyns fúkyrði, en tókst einhvern veginn að hrifsa af þeim veskið aftur. Félagi minn forðaði mér áður en illa fór og ég var svo í sjokki nokkuð lengi á eftir.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Það er útilokað að svara þessu. Ég legg mikið upp úr því að borða „local“ mat og er sennlega yfirleitt þannig stemmdur að mér finnst hann nánast alltaf bragðgóður. En ef ég verð að velja ætli ég nefni ekki steikurnar í Argentínu, „mixed grill“ – yfirleitt medum well done að hætti heimamanna, en engu að síður meyrar einsog smjör.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Önnur spurning sem ómögulegt er að svara! En jæja, get a.m.k. nefnt það sem kemur fyrst upp í hugann:
New York, enda heimili okkar hjóna í 8 ár. Róm. Hong Kong, er nýkominn heim þaðan, mjög heillaður. Amorgos, friðsæl eyja í gríska eyjaklasanum.
Sarlat, smábær í S-Frakklandi þar sem vinafólk okkar á lítin búgarð. Hef heimsótt þau tvisvar og mun vonandi gera oft til viðbótar.
Vieques, lítil eyja fyrir utan Puerto Rico. Þar er að finna einn besta „bioluminescent bay“ veraldar, en að svamla þar um á miðnætti og lýsast upp af þessum örverum, er eitthver magnaðasta upplifun sem ég hef átt.

Draumafríið:
Þessa dagana dreymir mig helst um að heimsækja Japan. Þarf að láta það rætast sem fyrst.

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Teits Þorkelssonar
NÝJAR GREINAR: Keflavíkurflugvöllur á meðal 100 bestu

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …