Ferðamálaráð veldur milliríkjadeilu

Ferðamálaráð Stokkhólms hefur í áraraðir markaðssett borgina sem höfuðborg Skandinavíu, nágrönnum sínum í Osló og Kaupmannahöfn til mikillar mæðu. Málið er nú komið inn á borð sænskra stjórnvalda.

Skandinavía er ekki land og getur þar af leiðandi ekki verið með höfuðborg. Þetta er alla vega mat forsvarsmanna norskra og danskra ferðamálafrömuða. Svíar eru hins vegar á annarri skoðun og telja sig í fullum rétti til að halda áfram að markaðssetja Stokkhólm sem höfuðborg svæðisins, eða Capital of Scandinavia. Máli sínu til stuðnings benda þeir á að Stokkhólmur sé meira miðsvæðis, hafi flesta íbúa og taki á móti fleiri ferðamönnum en nágrannaborgirnar.

Rugla ferðamenn í ríminu

Tor Sannerud, formaður ferðamálaráðs Oslóar, segir Svíana sýna hroka með þessari nafnbót og villi viljandi um fyrir túristum. Kollegi hans í Kaupmannahöfn segir þetta vera sænska markaðsbrellu sem engin innistæða sé fyrir. Hvorugur hefur þó kvartað við ferðamálaráð Stokkhólms vegna málsins.

Norðmaður nokkur hefur hins vegar kært notkun slagorðsins, Capital of Scandinavia, til sænskra stjórnvalda samkvæmt frétt Aftonbladet. Vill hann meina að Stokkhólmur sé alls ekki miðpunktur Skandinavíu. Gautaborg, Osló og Kaupmannahöfn liggja mun nærri miðjunni að hans mati og hann bendir einnig á að stærstu flugvellir svæðisins séu í nágrenni höfuðborga Danmerkur og Noregs en ekki í Stokkhólmi.

Ekki er vitað hvenær von er á úrskurði sænskra stjórnvalda í þessari nágrannadeilu.

NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Teits Þorkelssonar
TENGDAR GREINAR: Vegvísir StokkhólmurHádegismatur fyrir séð sælkera í Stokkhólmi

Mynd: Bengt H. Malmqvist © Premium Rockshot