Gefa ekki betlurum

Það getur verið erfitt að virða betlara að vettugi. Þrátt fyrir það segist stór hluti lesenda aldrei láta neitt af hendi rakna þegar fólk biður það um pening út á götu.

Betl er stundað út um allan heim. Það skiptir því engu hvort ferðinni er heitið til Kaupmannahafnar eða Kaíró, Barcelona eða Bangkok. Alls staðar verða á vegi okkar einstaklingar sem lifa á sníkjum.

Túristi fékk nýverið tvo menn, sem þekkja vel til þessara mála, til að gefa lesendum góð ráð um hvað er best að gera þegar fólk biður okkur um klink út á götu. Í kjölfarið báðum við lesendur um að segja okkur hvernig þeir snúa sér í þessum málum og niðurstaðan er sú að rúmlega fjörtíu prósent segjast aldrei gefa betlurum pening. Tæplega helmingur, eða 48,6 prósent, gefur hins vegar stundum. Aðeins 3,5 prósent gefa alltaf og helmingi fleiri gefa oftast.

Það bárust 430 atkvæði í þessari lesendakönnun Túrista.

TENGDAR GREINAR: Á að gefa betlurum?

Mynd: gr33ndata/Creative Commons