Vegabréf er þarfaþing

Við getum ferðast passalaus innan Norðurlandanna og til Schengen svæðisins. Þrátt fyrir það er best að pakka vegabréfinu niður áður en haldið er í hann þó ferðinni sé aðeins heitið til nágrannaríkjanna.

Það eru margir hér á landi sem gleyma að endurnýja vegabréfin sín tímanlega. Síðastliðin júní var til að mynda fjórði hver passi gefinn út í skyndi og vegabréf framlengd rétt fyrir brottför á Keflavíkurflugvelli. Sumir átta sig hins vegar of seint á því að passinn sé útrunninn eða gleyma honum heima og hafa ekki tíma til að snúa við. Það er hægt að komast úr landi passalaus ef ferðinni er heitið til Norðurlandanna eða landa innan Schengen svæðisins. Það er þó alls ekki víst að fólk komist langt án passans því flugfélög geta krafist þess að farþegarnir framvísi vegabréfi sem skilríkjum.

Vegabréf er öruggasti kosturinn

„Við innritun í okkar flug förum við fram á að farþegar sýni gild opinber skilríki með mynd, sem geta verið vegabréf eða ökuskírteini. Þegar flogið er til áfangastaðar utan Schengen er alltaf krafist vegabréfs. Þá er krafa um að börn séu alltaf með vegabréf,“ segir Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express aðspurður um hvaða reglur gilda hjá fyrirtækinu varðandi passa.

Guðjón Arngrímsson hjá Icelandair ráðleggur fólki að ferðast ekki án vegabréfs. „Flugrekandi ber ábyrgð á því að ganga úr skugga um að viðkomandi farþegi sé í raun sá sem hann segist vera. Til þess þarf örugg skilríki og þar er vegabréf langbesti kosturinn. Þess vegna ráðleggjum við fólki að ferðast ekki milli landa nema hafa vegabréfið með. Önnur opinber skilríki, þ.e. ökuskírteini og nafnskírteini, geta einnig dugað til þess að ferðast í flugi milli landa á Norðurlöndunum og innan Schengen svæðisins, en vegabréfið er öruggasti kosturinn og án þess getur fólk vissulega lent í vandræðum á ferðalögum sínum.“

Það er því ekki nóg að komast um borð í flugvélina án passa. Þegar kormið er á áfangastað getur fólk lent í vanda án passans því þess er krafist að þeir sem ferðast á Schengen svæðinu hafi gild persónuskilríki meðferðis. Samkvæmt vef utanríkisráðuneytisins eru engin önnur raunveruleg persónuskilríki gefin út hér á landi og ráðuneytið segir því mikilvægt að íslenskir ferðamenn hafi ávallt vegabréf sitt meðferðis.

Af ofantöldu má ráða að það ætti enginn að leggja í ferðalag út fyrir landsteinana án vegabréfs.

TENGDAR GREINAR: Fjórða hvert vegabréf afgreitt í skyndi
NÝJAR GREINAR: Á heimavelli: Kristín í ParísBesti veitingastaður Norðurlanda

Mynd: Þjóðskrá