Yfirvigt álíka dýr og fargjaldið

Taska sem er tíu kílóum of þung getur kostað flugfarþega rúmar tuttugu þúsund krónur aukalega. Verðskrár flugfélaganna vegna yfirvigtar eru mjög mismunandi.

Það getur reynst flugfarþegum dýrkeypt að pakka of miklu í töskurnar. Gjaldið fyrir hvert kíló, umfram leyfilega hámarksþyngd, kostar til dæmis rúmar tvö þúsund krónur hjá easyJet og er það miðað við hvern fluglegg. Kílóverðið er lægst hjá WOW air eða 1400 krónur.

Mörg félög rukka hins vegar fast gjald fyrir yfirvigt og skiptir þá engu hvort farið er einu kíló eða tíu yfir hámarksþyngdina. Hæst er gjaldið hjá Lufthansa, 8362 krónur, og lægst hjá Icelandair, 4900 krónur.

Leyfa mismikinn farangur

Hjá sumum lággjaldaflugfélögum borga farþegarnir fyrir allan innritaðan farangur. Annars staðar er ein taska innifalin en hún má ekki vega meira en 20 kíló. Farangursheimildin er rýmri hjá félögum eins og Icelandair, SAS og Airberlin sem takmarka þyngdina við 23 kíló. Þeir sem fljúga vestur um haf með Icelandair mega hins vegar taka með sér tvöfalt meira. Yfirvigtargjaldið er þó mun hærra hjá félaginu þegar um Ameríkuflug er að ræða eða 13.100 krónur.

Í töflunni hér að neðan má sjá hver farangursheimildin er hjá hverju flugfélagi fyrir sig og hvað borga þarf í yfirvigt. Miðað er við farþega á ódýrasta farrými.

Farangursheimild Gjald vegna yfirvigtar (m.v. gengi evru 23.apr)
Airberlin 23 kg 8362kr. óháð aukakílóum
Delta 23 kg 11706kr. óháð aukakílóum
EasyJet 20 kg 2007kr. á kíló
German Wings 20 kg 8362kr. fyrir 1-5 aukakíló, 15052kr. fyrir 5-10kg.
Iceland Express 20 kg 7500kr. óháð aukakílóum
Icelandair 23 kg 4900kr. innan Evrópu, 13100kr. í Ameríkuflugi
Lufthansa 23 kg 8362kr. óháð aukakílóum
Norwegian 20 kg 1505kr. á kíló + 1672kr. í þjónustugjald
SAS 23 kg 5017kr. óháð aukakílóum
Transavia 20 kg 1672kr. á kíló
WOW air 20 kg 1400kr. á kíló

NÝJAR GREINAR: easyJet næstdýrast í júlí

Mynd: geishaboy500/Creative Commons