Á heimavelli: Margrét í Kaupmannahöfn

Margrét Jensdóttir, læknir, flutti nýverið frá Kaupmannahöfn til Stokkhólms eftir að hafa búið í danska höfuðstaðnum í sjö ár. Hér eru þeir hlutir sem henni þykir bera hæst á gömlu heimaslóðunum.

„Hverfið mitt, Norðurbrú, hefur upp á ótal margt að bjóða og þarf varla að leita út fyrir það til að stytta sér stundir. Þar eru tvær bestu götur bæjarins Ravnsborggade og Elmegade. Í Ravnsborggade er krökt af antikverslunum sem óhætt er að þræða eingöngu sér til skemmtunar. Þar er hins vegar líka hægt að kaupa ógrynni af glingri og inn á milli finna gersemar. Nokkrum sinnum á ári er haldinn flóamarkaður í götunni þar sem allar verslanir stilla upp básum úti á götu, útigrilli og veitingasölu. Í götunni eru líka nokkur kaffihús og veitingastaðir og má þar helst mæla með Gavlen. Þar er notaleg stemmning og ágætis úrval af samlokum, súpu og salötum.

Elmegade er nauðsynlegt að skoða. Hér eru tískubúðir, fornbókaverslun og antikverslun í bland við kaffihús, vínbari og veitingastaði. Ber hæst að nefna The Laundromat Cafe, originalinn. Þar gengur maður alltaf að góðum kaffibolla vísum.

Hér er líka lítill sushistaður, Selfish, þar sem hægt er að fá dásamlegt sushi og frábæran lax: Bara chirashi. En borðin eru aðeins tvö og svo nokkur sæti við afgreiðsluborðið.

Þótt það sé urmull góðra og huggulegra kaffihúsa í hverfinu hefur vantað aðeins upp á hefðbundna veitingastaði. Það rættist þó heldur betur úr þegar tælenski veitingastaðurinn Kiin Kiin opnaði steinsnar frá Sankt Hans Torv. Sá staður hefur afrekað að verða sér út um Michelin stjörnu og verðlagið er eftir því. Sem betur fer eru sömu eigendur með lítið bistro við hliðina, en að hluta til sama eldhús, þar sem hægt er að fá sér ljúffengan tælenskan mat án þess að fara á hausinn.

Søerne eru hjarta borgarinnar fyrir mér. Tjarnirnar tengja saman flestalla borgarhlutana. Á góðum degi mætti ganga kringum þær allar (tæpir 6,5 km) eða láta sér nægja að ganga kringum eina eða tvær eftir því hvort maður á erindi á Vesterbro, Fredriksberg, Nørrebro eða Østerbro. Hér fara borgarbúar í göngutúr til að viðra börn sín og hunda, út að skokka, eða bara til að setjast niður á bekk með kaffibolla og blað. Það eru víða kaffihús til að hvíla lúin bein á leiðinni.

Assistens kirkjugarðurinn er stærsta græna svæði Nørrebro. Kirkjugarðurinn tengist gullöld Kaupmannahafnar enda flest stórmenni Danmerkur grafin hér, svo sem HC Andersen og Søren Kierkegaard. Samkvæmt almannarómi hvílir Jónas Hallgrímsson þar enn.“

Margrét mun deila innherjaupplýsingum um Stokkhólm með lesendum Túrista þegar hún hefur náð áttum í borginni.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Á heimavelli: Kristín í París
NÝJAR GREINAR: Á nýjar slóðir með ódýru tengiflugi