Bandaríkjamenn slaka á eftirliti en Íslendingar ekki

Flugfarþegar sem eru eldri en 75 ára og yngri en 12 ára þurfa ekki að fara úr skóm þegar þeir fara í gegnum vopnaleit á bandarískum flugvöllum. Hér á landi er eitt látið yfir alla ganga.

Á Keflavíkurflugvelli þurfa allir farþegar að fara úr skóm í vopnaleitinni. Þetta eru strangari kröfur en gerðar eru í nágrannalöndunum líkt og Túristi greindi frá sl. haust. Þá kom fram að bandarískar reglur eru ein aðalástæðan fyrir þessari ítarlegu skoðun hér á landi.

Vestanhafs eru öryggisverðir á flugstöðvum hins vegar hættir að krefjast þess að eldra fólk og börn fari úr skóm þegar farið er í gegnum öryggishlið. „Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna, TSA, vinnur að bættu öryggi og liður í að ná því markmiði er að hverfa frá þeirri reglu að setja alla farþega undir sama hatt…“, segir í svari Kawika Riley, talskonu TSA við fyrirspurn Túrista. „Með því að straumlínulaga ferlið fyrir þann hóp farþega sem er talinn áhættuminni þá gefst TSA færi á að einbeita sér að hópnum sem meiri hætta gæti stafað af“, segir ennfremur í svari Riley. Hún segir þetta nýja verklag hafa verið prófað á sex bandarískum flugvöllum í ágúst í fyrra og í kjölfarið hafi reglunum verið breytt á landsvísu.

Óbreytt eftirlit í Keflavík

„Við höfum ekki heyrt um slíka framkvæmd á flugverndarskimun í Bandaríkjunum enda er farþegi alltaf skilgreindur sem farþegi burtséð frá aldri og skimun miðast við að hindra að ólögleg efni komist um borð í loftfar farþegum til öryggis. Framkvæmdin gæti jafnvel verið misjöfn eftir flugvöllum og ríkjum í BNA“, segir í svari Friðþórs Eydal, talsmanns Isavia við fyrirspurn Túrista um hvort reglan hér sé enn að skanna skó allra farþega þó reglunum hafi verið breytt vestanhafs. En það er Isavia, en ekki íslensk flugmálayfirvöld, sem ákveða hvaða reglur gilda á Keflavíkurflugvelli.

„Skór eru skimaðir sérstaklega hjá öllum farþegum til þess að samræma reglur EB og TSA og einnig til þess að flýta framkvæmdinni. Reynslan sýnir að þessi aðferð leiðir til minni tafa fyrir farþega en þegar beita þarf sértækri skimun í hvert sinn sem líkamsskanni nemur málma í skóm auk þess sem reglur kveða á um alltíðar skyndikannanir á skóm“, segir ennfremur í svari Friðþórs.

Þess ber að geta að líkamsskannar eru í öryggishliðum á bandarískum flugvöllum en þeir hafa ekki náð útbreiðslu í Evrópu. Þannig tæki eru ekki notuð hér á landi.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Skoðum skó betur en aðrirKeflavíkurflugvöllur meðal 100 bestu í heimi

Mynd: Icelandair