Borgirnar þar sem gistingin er dýrust

Það verður enginn fulltrúi frá Evrópuþinginu á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó í næsta mánuði. Ástæðan er „hóflaus“ verðlagning á hótelgistingu í borginni.

Það dreymir vafalítið marga um leggjast í sólbað á Copacabana og taka púlsinn á næturlífinu í Ríó. Það er þó ekki á færi allra því samkvæmt nýjum tölum frá hótelbókunarfyrirtækinu HRS er hvergi dýrara að kaupa sér gistingu en í næst fjölmennustu borg Brasilíu.

Þar borguðu hótelgestir að meðaltali rúmar 39 þúsund krónur fyrir nóttina á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þessir háu prísar eru ástæðan fyrir því að Evrópuþingið hefur hætt við að senda ellefu manna þingmannanefnd á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó í júní. Talsmaður þingsins segir hótelverðin vera „hóflaus“.

Sydney í Ástralíu toppaði lista HRS í fyrra en er nú í öðru sæti. Moskva er í þriðja sæti. Þar kostar nóttin að jafnaði um 25 þúsund krónur. Zurich er næst dýrust í Evrópu og Stokkhólmur kemur þar á eftir.

Af stórborgum Evrópu er Prag ódýrust þegar kemur að gistingu. Hótelnóttin kostar um 10 þúsund krónur að meðaltali í þeirri vinsælu ferðamannaborg.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Stundvísitölur: Iceland Express alltaf á réttum tímaDenver opnar dyr fyrir skíðafólk

Mynd: Archer10/Creative Commons