Denver opnar dyr fyrir skíðafólk

Áhugafólk um útivist og vetraríþróttir getur glaðst yfir nýjasta áfangastað Icelandair.

Í dag hefst áætlunarflug Icelandair til Denver í Colorado fylki. Borgin stendur nánast í Bandaríkjunum miðjum við rætur Klettafjalla þar sem eru einstök útivistarsvæði og einhverjir bestu skíðastaðir í heimi. Aspen og Vail eru þeirra þekktastir.

Aðgengi íslenskra ferðamanna að þessum svæðum verður því miklu betra með tilkomu áætlunarflugsins en Icelandair mun fljúga til Denver fjórum sinnum í viku jafnt sumar sem vetur.

Stutt í brekkurnar

„Með beina fluginu til Denver opnast nýr heimur fyrir íslenska ferðamenn. Colorado fylki er útivistarparadís allan ársins hring.  Loftslagið er yndislegt og sólin skín þar yfir 300 daga á ári. Það er himneskt að renna sér í hlíðum Klettafjallanna og sá sem fer þangað í skíðaferð á erfitt með að fara eitthvað annað. Við höfum ávallt trúað á svæðið og selt þangað ferðir í yfir áratug,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson hjá ferðaskrifstofunni GB-ferðir. „Við munum bjóða upp á skíðaferðir í öllum verðflokkum. Það er líka kostur að öll skíðasvæðin eru nálægt Denver flugvelli,“ bætir Jóhann við. Hann segir Aspen vera í miklu uppáhaldi hjá sér og þangað hafi hann farið nánast árlega frá árinu 1994 og hann eigi marga góða vini þaðan.

Denver í Colorado er níunda borgin sem Icelandair flýgur áætlunarflug til í Norður Ameríku.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Vanmetnustu ferðamannaborgirnar

Mynd: Zach Dischner/Creative Commons