Gera Bandaríkjamenn strangari kröfur hér á landi?

Flugmálastjórn ætlar að láta kanna af hverju eftirlit með skóm flugfarþega er strangara hér á landi en í Evrópu og vestanhafs. Þetta er niðurstaðan eftir frétt Túrista um tilslakanir á bandarískum reglum. Innanríkisráðuneytið, Flugmálastjórn og Isavia þekktu ekki til breytinganna vestanhafs sem hafa verið í gildi í nærri því eitt ár.

Allir farþegar sem fljúga frá Keflavíkurflugvelli þurfa að fara úr skóm í vopnaleitinni. Er þetta gert til að mæta kröfum bandarískra yfirvalda. Eftirlit með skóbúnaði er ekki eins strangt á stærstu flugvöllum Evrópu né í nágrannalöndunum samkvæmt könnun Túrista sl. haust. Í vetur hafa farþegar í Bandaríkjunum, sem eru yngri en tólf ára, ekki þurft að fara úr skóm og á nokkrum þarlendum flugvöllum gildir það sama um þá sem eru eldri en 75 ára.

Túristi fjallaði um þessar tilslakanir Samgönguöryggisstofnunnar Bandaríkjanna, TSA, í síðustu viku. Þar var haft eftir talsmanni Isavia, fyrirtækisins sem rekur Keflavíkurflugvöll, að honum væri ekki kunnugt um þessar breytingar.

Frá Innanríkisráðuneytinu og Flugmálastjórn bárust svipuð svör við fyrirspurn Túrista um hvernig stæði á því að reglurnar hér á landi væru strangari en í Evrópu og nú vestanhafs. Í svörunum segir einnig að á Kaupmannahafnarflugvelli þurfi allir farþegar á leið til Bandaríkjanna að fara úr skóm. Fjölmiðlafulltrúi danska flugvallarins hefur staðfest við Túrista að svo er ekki.

Ætla að óska skýringa í Bandaríkjunum

Nú ætlar hins vegar Flugmálastjórn að leita eftir upplýsingum frá Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna, TSA, um hvernig standi á að því að gerðar eru strangari kröfur um skimun á skóm hjá farþegum á Keflavíkurflugvelli en víðast annars staðar. Í nýju svari Flugmálastjórnar til Túrista segir meðal annars: „TSA í Bandaríkjunum hefur ekki tilkynnt Flugmálastjórn Íslands um tilslakanir á kröfum um skimun. Í ljósi upplýsinga á heimasíðu TSA um tilslakanir á skimun farþega undir 12 ára aldri og yfir 75 ára sem og fullyrðingum um að farþegar, sem um Kastrup flugvöll fara til Bandaríkjanna, þurfi ekki að sæta skimun á skófatnaði sérstaklega, mun Flugmálastjórn Íslands óska skýringa frá TSA enda telur stofnunin mikilvægt að farþegum sé ekki mismunað né íþyngt umfram kröfur.“

Flugmálastjórn og Innanríkisráðuneytið ekki sammála

Samkæmt þessu svari hefur Flugmálastjórn ekki áður verið ljóst að farþegar á evrópskum flugvöllum þurfa ekki alltaf að láta skanna skó þegar flogið er til Bandaríkjanna. Það er einnig athyglisvert í þessu svari Flugmálastjórnar að stofnunin telur eftirlitið á Keflavíkurflugvelli í dag vera íþyngjandi fyrir þá sem fara þar um. Innanríkisráðuneytið er á öndverðum meiði því í svari þess til Túrista sl. haust segir, „…er það mat ráðuneytisins að sú leið sem valin hefur verið við skoðun á skófatnaði sé á engan hátt íþyngjandi fyrir flugfarþega…“.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Bandaríkjamenn slaka á eftirliti en Íslendingar ekki„Takið af ykkur skóna“ – en bara í Leifsstöð

Mynd: Icelandair