Himinhátt prentunargjald Ryanair

Þeir sem mæta í flug hjá Ryanair og gleyma að prenta út brottfararspjöld áður en farið er út á flugvöll þurfa að borga nærri tíu þúsund krónur fyrir prentunina út á velli.

Aukagjöld flugfélaga geta reynst farþegunum dýrkeypt og valdið ruglingi. Sum rukka fyrir að taka frá sæti, önnur fyrir innritaðan farangur og kreditkortagjöldin geta líka verið há. Eitt grófasta dæmið um aukagjöld er sú þóknun sem írska lággjaldaflugfélagið Ryanair tekur fyrir prentun á brottfararspjöldum. Nemur það 60 evrum á farþega sem jafngildir nærri tíu þúsund krónum. Spænskir dómstólar úrskurðuðu gjaldið ólöglegt í fyrra en Ryanair áfrýjaði dómnum og vann. Stuttu síðar hækkaði félagið gjaldið töluvert.

Þeir farþegar sem uppgötva að þeir hafi gleymt að prenta út brottfararspjöldin sín þegar komið er út á flugvöll geta ekki komist hjá gjaldinu með því að biðla til annarra flugvallarstarfsmanna um að prenta út fyrir sig. Því samkvæmt reglum Ryanair verður að prenta spjöldin út í síðastalagi fjórum tímum fyrir brottför.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Bandaríkjamenn slaka á eftirliti en Íslendingar ekkiBorgar sig ekki alltaf að bóka með fyrirvara
TENGDAR GREINAR: Þrjú þúsund króna aukagjald easyJet

Mynd: Wikicommons