Hvar þykir íbúunum brönsinn bestur?

Nýjasta kaffihús Friðriks Weisshappel í Kaupmannahöfn er tilnefnt til verðlauna fyrir besta morgunmatinn í borginni.

Bekkurinn er þétt skipaður á matsölustöðum Kaupmannahafnar á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Borgarbúar eru sólgnir í góðan bröns og það er ekki óalgengt að biðraðir myndist fyrir framan vinsælustu staðina rétt fyrir opnun. Það er alla vega raunin á Laundromat Cafe, kaffihúsunum sem Friðrík Weisshappel á og rekur á þremur stöðum í borginni.

Sá nýjasti, við Gammel Kongevej á Frederiksberg, er tilnefndur til lesendaverðlauna Berlingske í ár og etur þar kappi við fjögur önnur veitingahús. Það er feikigóð viðurkenning enda skipta þeir sennilega hundruðum matsölustaðirnir í Kaupmannahöfn sem hafa bröns á matseðlinum.

Þeir sem eru á leið um Kaupmannahöfn og vilja fá sér almennilegan morgunmat, bæði á virkum degi og um helgi, ættu að leita uppi þessa fimm staði sem tilnefndir eru til verðlauna fyrir besta brönsinn í Köben.

The Laundromat Cafe, Gammel Kongevej 96.

Í desember sl. opnaði þriðja Laundromat Cafe Kaupmannahafnar við helstu verslunargötuna í Frederiksberg. Það er kjörið að taka sér pásu frá búðunum á Strikinu, halda út á Gammel Kongevej og blanda þar geði við góðborgarana sem rölta þar á milli sérverslana og kaffihúsa. Það er leikaðstaða á kaffihúsinu sem er mikill kostur fyrir barnafjölskyldur.
Verð: 138 danskar um helgar en 88 danskar á virkum morgnum.

Pixie, Løgstørgade 2.

Út á Austurbrú er barnavagnar algengari sjón en bílar. Þar tekur fólkið því daginn snemma og tryggir sér bestu sætin á kaffihúsunum um leið og opnað er. Kaffihúsið Pixie stendur við huggulegt lítið torg sem nefnist Boba Plads. Það verður enginn svikinn af því að eyða morgunstund í sólinni.
Verð: 119 danskar

Nimb Bar, Bernstorffsgade 5.

Á fínasta hóteli borgarinnar, Nimb í Tívolí, er aðeins serveraður bröns fyrir fullorðna. Foreldrar í langþráðu fríi frá heimilinu geta kannski réttlætt fyrir sér verðið á morgunverðarhlaðborðinu.
Verð: 325 danskar.

Paustian, Kalkbrænderiløbskaj 2.

Þessi staður við Norðurhöfnina státaði eitt sinn af Michelin stjörnu. Nýir eigendur héldu þessari viðurkenningu ekki en þykja engu að síður vera toppklassa matreiðslumenn og bjóða upp á metnaðarfullan árbít. Hér þarf að panta borð í tíma.
Verð: 205 danskar

Salon 39, Vodroffsvej 39

Vinsælir kokteilbarir eru alla jafna ekki ofarlega á óskalista þeirra sem vilja byrja daginn á góðum mat. Vertunum á þessum sjarmerandi stað rétt utan við miðborgina tekst þó með stæl að sameina þessa tvo ólíku hluti. Brönsinn er aðeins í boði á sunnudögum.
Verð: Einstakir réttir á 79 danskar

NÝJAR GREINAR: Denver opnar dyr fyrir skíðafólk

Mynd: The Laundromat Cafe