Lækka verð rétt fyrir vertíð

Iceland Express og WOW air eru í verðstríði. Tilboð fyrirtækjanna hafa ekki í langan tíma verið jafn lág og þau eru í dag. Von er á frekari afsláttum hjá Iceland Express en ólíklega hjá WOW air.

Síðustu tvo mánuði hafa WOW air og Iceland Express keppst um að bjóða tilboð á fargjöldum í sumar. Stundum birtast auglýsingar félaganna sama daginn, verðin eru álíka og áfangastaðirnir oft þeir sömu. Þeir sem hafa bókað þessi tilboð undanfarnar vikur hafa borgað á bilinu tólf til fimmtán þúsund krónur fyrir farið aðra leið. Í dag auglýsa bæði félög farið í sumar til meðal annars Kaupmannahafnar og London á undir tíu þúsund krónur. Sumarið er háannatími í ferðaþjónustunni og því vekur athygli að tilboðsverðin skuli vera svona lág þegar júní er handan við hornið.

Áframhald hjá Iceland Express en ólíklega hjá WOW air

„Við erum með mjög sveigjanlegt verðstýringakerfi og yfirbygging hjá okkur er mjög lítil, þar af leiðandi getum við boðið lægra verð. Við finnum fyrir miklum áhuga erlendis frá á ferðum til Íslands. Hin hefðbundnu sumarfrí erlendis byrja hins vegar ekki fyrr en um miðjan júní og þess nýtur hinn íslenski neytandi í lækkandi verðum þann mánuðinn“, segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, aðspurð um hvernig félagið geti lækkað verð svona stuttu fyrir sumarið. Hún segir þó frekar ólíklegt að tilboðin verði fleiri í sumar eins og staðan er núna.

„Við höfum verið og ætlum okkur að vera leiðandi í samkeppninni í flugi til og frá Íslandi“, segir Heimir Már Pétursson hjá Iceland Express. „Við erum alltaf með tilboð og munum halda því áfram í sumar. Þetta eru ekki mörg sæti í hverji vél en við viljum leyfa almenningi að njóta þess að við getum boðið svona gott verð“, bætir Heimir við. Hann segist ekki telja að offramboð sé á flugsætum til Kaupmannahafnar og London. „Eftir því sem framboðið eykst, þá fjölgar farþegunum. Við höfum bókað fleiri farþega á þessum flugleiðum í ár en í fyrra“, segir Heimir.

Verðkannanir Túrista hafa sýnt að verðskrár Icelandair og easyJet eru ekki eins lágar og hjá hinum félögunum í sumar. Ódýrasta farið með easyJet til London í júní kostar til að mynda nærri tvöfalt meira en tilboðsverðið hjá WOW air og Iceland Express er í dag.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Borgar sig ekki alltaf að bóka með fyrirvara
NÝJAR GREINAR: Netsamband í fyrsta skipti í Íslandsflugi

Mynd: Túristi