Netsamband í flugi til og frá Íslandi

Þeir sem fljúga með Norwegian frá Keflavík til Osló í sumar geta verið á netinu á leiðinni yfir hafið. Þetta verður í fyrsta skipti sem þessi þjónusta er í boði í Íslandsflugi.

Það tekur tvo og hálfan tíma að fljúga frá Keflavík til höfuðborgar Noregs. Þeir sem fara þessa leið með norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian í sumar geta drepið tímann á netinu. Því nær allur flugfloti félagsins er útbúinn þráðlausu netkerfi og kostar þjónustan ekki krónu.

Í samtali við Túrista segir Boris Bubresko, yfirmaður viðskiptaþróunnar félagsins, gera ráð fyrir að það verði netsamband alla leiðinni frá Íslandi til Noregs. Hann bendir þó á að Ísland sé við ystu mörk svæðisins sem net Norwegian nái til. Því verði ekki hægt að segja til með vissu um hvernig sambandið verður yfir Íslandi fyrr en fyrsta nettengda þotan hefur flogið til landsins.

Túristi prófaði þessa nýju þjónustu Norwegian nýverið og það kom þægilega á óvart hversu gott netsambandið var (Sjá nánar hér).

Eins og áður segir eru ekki allar vélar Norwegian með þráðlausu neti og því ekki víst að þeir sem fljúga með félaginu á milli Noregs og Íslands geti hringt í gegnum Skype, farið á Facebook eða lesið sér til um Osló á netinu í háloftunum.

Farþegar bandaríska flugfélagsins Delta á leið til New York ættu einnig að komast á netið en þó aðeins þegar flogið er yfir Bandaríkjunum. Kostar aðgangurinn 12 dollara sem jafngildir rúmum 1500 krónum.

TENGDAR GREINAR: Flugfarþegar sækja í frítt net
NÝJAR GREINAR: Þýskir ferðamenn kvarta undan Grikkjum