Vanmetnustu borgirnar

Glasgow og Bergen eru meðal borga sem ferðamenn ættu að veita meiri athygli samkvæmt úttekt CNN.

Höfuðborgir hafa alla jafna upp á meira að bjóða en þær minni og þangað halda því flestir túristar. Menningin og mannlífið blómstrar þó víðar og ferðaskríbentar CNN hafa tekið saman lista yfir þær borgir sem þeir telja að of fáir ferðamenn heimsæki.

Á honum er meðal annars að finna staði sem flogið er beint til héðan.

Listi CNN yfr vanmetnustu ferðamannaborgirnar:

Bergen í Noregi

Rigning er eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann þegar minnst er á þessa vinalegu borg við vesturströndina. Miðbærinn er frekar lítill en þar er þó gott úrval af kaffihúsum og veitingastöðum. Matarmarkaðurinn við höfnina er líka eitthvað sem borgaryfirvöld í Reykjavík ættu að reyna að herma eftir. Borgin er umkringd fjöllum sem henta vel til útivistar en einnig er hægt að komast á toppinn með lyftum og njóta útsýnisins.

Bergen er mikil tónlistarborg enda fæðingarstaður tónskáldsins Edvard Grieg og í seinni tíð hafa margir af þekktustu poppurum Norðmanna komið frá bænum þar úrkoma mælist 242 daga á ári.

Glasgow í Skotlandi

Þeir eru ófáir hér á landi sem hafa farið í verslunarleiðangur til þessarar skosku borgar. Það eru þó ekki bara búðirnar sem standa fyrir sínu því þar er auðvelt að gera sér glaðan dag enda gott úrval af klassískum knæpum og góðum tónleikastöðum. Og svo eru íbúarnir mjög vinalegir.

Queens í Bandaríkjunum

Það ríkir sérstaklega mikil fjölmenning í þessum hluta New York borgar. Þar búa rúmlega tvær milljónir manna sem eiga ættir að rekja til allra heimsins horna. Í Jackson Heights ríkir Bollywood stemming, í Flushing er næststærsti Kínamarkaðurinn og í Jamaica er það jazzinn sem dunar.

Hoi An í Víetnam

Í miðborg Hoi An eru saumastofur á jarðhæðum flestra húsa. Þar sitja klæðskerar og hamast við að sníða föt sem líkjast þeim sem kúnnarnir hafa beint á í Vogue og GQ. Ferðamenn geta notið þess að skoða þessa fallegu litlu borg á milli þess sem af þeim eru tekin mál og lokahönd er lögð á saumaskapinn.

Lissabon í Portúgal

Stærstu borgir Spánar njóta sennilega flestar, ef ekki allar, meiri vinsælda meðal ferðamanna en höfuðborg Portúgals gerir. Það er synd og skömm því enginn verður svikinn af heimsókn til bröttu borgarinnar. Fallegar byggingar raða sér þétt við stór torg, þröngar hliðargötur og upp eftir bröttum brekkum. Maturinn stendur líka örggulega undir væntingum sælkera.

Aðrar borgir á lista CNN eru Darwin í Ástralíu, San Juan í Púertó Ríkó, Isfahan í Íran, Calgary í Kanda og Durban í S-Afríku.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Á nýjar slóðir með ódýru tengiflugiÁ heimavelli: Margrét í Kaupmannahöfn

Mynd: Túristi