Vinsældirnar Ólafi að þakka

Rússneskt jólaþema og regnbogi eftir Ólaf Elíasson eru meðal þeirra hluta sem slógu í gegn hjá Dönum og gestum þeirra á síðasta ári.

Á þaki listasafnsins Aros í Árósum stendur risastór hringur í öllum regnbogans litum. Þessi listasmíð eftir Ólaf Elíasson var vígð á síðasta ári og hún virðist hafa hitt í mark. Gestum safnsins fjölgaði nefnilega svo mikið að það er í áttunda sæti yfir þá staði í Danmörku sem laða sín flesta gesti. Aros var í tuttugasta og fimmta sæti á listanum fyrir árið 2010.

Líkt og árin á undan er það Tívolí í Kaupmannahöfn sem er nýtur mestra vinsælda. Hátt í fjórar milljónir manna sóttu skemmtigarðinn heim í fyrra. Það er töluverð aukning frá árinu á undan og samkvæmt frétt Politiken þakka forsvarsmenn Tívolí aðsókninni í desember fyrir þennan góða árangur. Þema aðventunnar var Rauða torgið í Moskvu og það hefur greinilega höfðað til borgarbúa og allra ferðamannanna sem leggja leið sín til Kaupmannahafnar fyrir jól.

TENGDAR GREINAR: Tívolí opnar hótel við götu Árna MagnússonarÓkeypis fyrir börn í Tívolí

Mynd: Aros