Bestu riddarar Evrópu berjast

Hér heima er efnt til víkingaleika þar sem uppáklæddir fullorðnir menn reyna að apa eftir fornum köppum. Á meginlandi Evrópu klæða sumir sig í riddarabúning um helgar og fara á bak með spjót og sverð. Í sumar gefst gott tækifæri til að fylgjast með þeim bestu í síðarnefnda hópnum.

Áhugafólk um lífið á miðöldum ætti að íhuga kaup á flugmiða til Jótlands í sumar. Við hið nýuppgerða virki, Spøttrup Borg, verður haldið miðaldamót í júlí og í tengslum við það fer fram Evrópumeistaramótið í riddarafimi. Sextán riddarar hafa unnið sér inn þátttökurétt á mótinu og munu þeir etja kappi á nýjum keppnisvelli við virkið dagana 23. til 27. júlí.

Meðal þess sem riddararnir eiga að gera er að höggva epli í spað, stinga löngu spjóti inn í hring og hoppa yfir alls kyns hindranir á hestunum sínum. Þetta er í fyrsta skipti sem Danir verða þess heiðurs aðnjótandi að hýsa mótið.

Uppáklæddir áhorfendur

Það verða ekki aðeins keppendur á riddaramótinu sem munu klæða sig upp í tilefni að miðaldamótinu við Spøttrup Borg. Móthaldarar búast nefnilega við að hundruðir manna muni mæta þangað í miðaldarbúningum. Á svæðinu verður til sölu alls kyns varningur og skotið verður úr fallbyssum. Það verður því líklega sjón að sjá fólkið sem kemur til að votta þessu tímabili virðingu sína á N-Jótlandi í lok júlí. Það er þó ekki skilyrði fyrir aðgöngu að miðaldamótinu að klæða sig upp. Ferðamenn geta því óhræddir kíkt við á Bispens markaðinn (sjá kort).

TENGDAR GREINAR: Fallegasta þorpið í Danmörku

Þessi grein er skrifuð í samvinnu við:

Myndir: Danmark Media Center og Spøttrup Borg