Samfélagsmiðlar

Borg í góðum tengslum við náttúruna

Íbúar Denver þurfa ekki að fara langt til að renna sér á skíðum við bestu aðstæður. Þegar þeir eru ekki uppi í fjöllum geta þeir tekið upp á því að stoppa íslenska ferðamenn og spyrjast fyrir um land okkar og þjóð líkt og útsendari Túrista fékk að reyna á dögunum.

„Er það rétt að fólkið hafi tekið völdin í sínar hendur á Íslandi og ætli að setja alla bankakarlana bak við lás og slá?“, spyr þjónustustúlka á matsölustaðnum The Market þegar útsendari Túrista segist vera kominn frá Íslandi til að kynna sér heimaborg hennar, Denver. Gestur á staðnum leggur orð í belg og beinir um leið athyglinni frá búsáhaldabyltingunni. „Frændi minn lærði íslensku í háskóla hér í Colorado. Sennilega fyrsti svarti maðurinn til að læra tungumálið“, segir hann og hlær hátt. Aðspurður segist hann hafa heimsótt The Market daglega í nærri tvo áratugi og geti ekki hugsað sér betri stað í borginni fyrir svanga íslenska ferðamenn. Hann segir staðinn persónulegan öfugt við alla skyndibitastaðina sem standa í röðum við helstu götur borgarinnar.

Og þessi hressi heimamaður hefur sennilega rétt fyrir sér því The Market er einn af þessum stöðum í Denver sem sker sig úr. Það þarf hins vegar ekki að rölta lengi um miðborgina til að ramba á forvitnilegar sérverslanir eins og balsamikedik búðina hans Mick Major eða hinn splunkunýja veitingastað The Kitchen (sjá myndasýningu hér neðar) þar sem boðið er upp á ostrur þó 2000 kílómetrar séu að ströndinni. Það má því ekki dæma borgina út frá litlausum háhýsum og nokkrum hrörlegum byggingum sem enn er að finna í miðborginni þó uppgangurinn hafi verið mikill á þessu svæði undanfarna áratugi.

Denver á það reyndar sammerkt með fleiri bandarískum borgum að þar hafa bílar verið í forgangi allt of lengi. Þeirri þróun eru borgaryfirvöld nú að reyna að snúa við með því að auðvelda hjólreiðafólki og gangandi vegfarendum að komast leiðar sinnar .

Grönnustu íbúar Bandaríkjanna

Þó Denver sé ekki ein af tuttugu fjölmennustu borgum Bandaríkjanna á hún engu að síður úrvalsdeildarlið í öllum vinsælustu íþróttagreinum Bandaríkjanna. Borgin er því kjörinn áfangastaður fyrir þá sem vilja krydda utanlandsferðina með því að slást í hóp tugþúsunda áhorfenda á leik í NBA, NFL, NHL eða MLB.

Íbúarnir láta sér samt ekki nægja að sitja í stúkunni. Áhugi á útivist er landlægur á þessum slóðum enda örstutt í hin tignarlegu Klettafjöll og öll þau frábæru útivistarsvæði sem þar er að finna. Á veturna liggur púðursnjór í fjallshlíðunum við Aspen, Vail og Breckenridge og þá streyma þangað skíðamenn frá öllum heimsins hornum. Þegar snjóa leysir eru nágrannasveitir Denver kjörinn staður fyrir þá sem vilja ganga, hjóla og allt það sem hugur útivistarmannsins girnist. Það er klárlega Klettafjöllunum að þakka að íbúar Colorado eru grennstir Bandaríkjamanna.

Vaxandi heimsborg

Fjöllin eru líka helsta ástæðan fyrir blómlegum ferðamannaiðnaði á svæðinu. En með tilkomu listasafns stjörnuarkitektsins Daniel Libeskind, matsölustaða eins og Kitchen og ört vaxandi áhuga heimamanna á framleiðslu lítilla brugghúsa (fylkisstjórinn byrjaði ferilinn sem bruggari og bareigandi) þá er Denver góður staður til að brjóta upp skíðaferðina eða verslunarreisuna. Vegalengdir í borginni eru heldur ekki langar sem er mikill kostur þegar tíminn er knappur og mikið að sjá og gera. Beint flug Icelandair til borgarinnar eru því ekki bara góð tíðindi fyrir skíðaáhugafólk.

Auðvitað hægt að versla

Búðarölt er hluti af Ameríkureisu flestra ferðamanna. Í Denver má finna verslunarmiðstöðvar og sérverslanir í miðborginni. Í hverfinu Cherry Creek er risavaxinn kringla. Þar geta kaupglaðir gengið á milli búða frá öllum þekktustu verslunarkeðjunum vestanhafs, til dæmis Apple, Gap, Macy’s og fleiri.

Bandaríkjamenn eru upp til hópa kurteisir og ekki óalgengt að þeir kasti kveðju á ókunnuga. Íbúar Denver eru þar engin undantekning og það sem meira er þá virðast margir þeirra vita að nú sé hægt að fljúga beint til Íslands. Það er því ekki bara þjónustustúlkan á The Market sem vill vita meira um land og þjóð. Sumir eru jafnvel svo áhugasamir að þeir eru til í að borga fyrir umgang á barnum í skiptum fyrir góð ráð um hvernig best sé að verja tveimur vikum á Íslandi. Túristi hitti einnig eldri hjón á förnum vegi sem voru búin að panta sér ferð til Íslands og ætluðu að keyra um landið með vinafólki. Það er því næsta víst að þeim á eftir að fjölga mikið íbúum Colorado sem hafa heimsótt Ísland. Þá eru líka Denverbúar sem bíða spenntir eftir íslenskum túristum. Þar á meðal Andre, kokkurinn á The Kitchen, sem iðar í skinninu að fá að bera sjávarrétti sína á borð fyrir fólk sem er alið upp á fiski.

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …