Borgaðu gistinguna með listaverki

Hótelstjóri í Stokkhólmi þiggur listaverk sem greiðslu fyrir gistingu. Skapandi túristar geta því komist ódýrt frá ferð til sænsku höfuðborgarinnar.

Það kostar að lágmarki rúmar tuttugu þúsund íslenskar krónur að gista á Clarion hótelinu við aðallestarstöðina í Stokkhólmi. Um þessar mundir gefst hins vegar listafólki kostur á að gista á hótelinu og greiða fyrir með verkum sínum. Eitt verk jafngildir greiðslu fyrir eina nótt. Hver listamaður má þó aðeins nota þennan gjaldmiðil í tvær nætur á ári.

Haft er eftir hótelstjóranum í útlendingablaðinu The Local í Svíþjóð að viðtökurnar við þessu óvenjulega tilboði hafi verið góðar. Fjöldi fólks hafi lagt inn beiðni um herbergi gegn listaverki. En listamenn verða að gera boð á undan sér og fylla út umsóknareyðublað á heimasíðu hótelsins (sjá hér). Það er þó engin ástæða til að örvænta því kröfurnar eru ekki miklar. Enda kannski ekki ástæða til þegar verkið er aðeins metið á rúmar tuttugu þúsund krónur.

NÝJAR GREINAR: Grikkland að hætti Egils
TENGDAR: Vegvísir fyrir Stokkhólm

Mynd: Clarion hotel