Dýrustu og ódýrustu borgirnar í dimmu

Það kostar þrefalt meira að fara út að borða og gista á hóteli í London en í Hanoi. Hér eru þær 10 borgir þar sem dýrast er að borða kvöldmat, fá sér kokteil, taka leigubíl og leggja sig á hóteli.

Par sem gistir eina nótt á fjögra stjörnu hóteli í London, fær sér kokteil, tveggja rétta kvöldmáltíð með víni og tekur leigubíl tilbaka á hótelið má reikna með að pakkinn kosti um sextíu og fimm þúsund krónur. Sambærileg gisting og kvöldskemmtun kostar tæpar átján þúsund í Hanoi í Víetnam. Sú borg er sú ódýrasta af þeim stöðum sem ferðasíðan Tripadvisor hefur vegið og metið kostnaðinn við að dvelja í eftir að sólin sest. London er hins vegar dýrust og höfuðborgir Skandinavíu raða sér einnig allar á lista þeirra tíu dýrustu.

Þrjár evrópskar borgir eru meðal þeirra ódýrustu, Sofía, Varsjá og Búdapest. Í síðastnefndu borginni kostar gisting, matur, drykkir og leigubíll um tuttugu og fjögur þúsund krónur.

Þeir sem vilja gera vel við í mat og drykk ættu því kannski að íhuga að kaupa sér örlítið dýrari flugmiða en þá sem bjóðast til London og Kaupmannahafnar. Því prísarnir á þeim tveim stöðum eru háir eins og sést á þessum listum Tripadvisor, tölurnar sýna verðið á veitingahúsaferð og hótelgistingu í hverji borg fyrir sig.

10 ódýrustu borgirnar

 1. Hanoi: 17.800 kr.
 2. Peking: 20.000 kr.
 3. Bangkok: 20.400 kr.
 4. Búdapest: 24.300 kr.
 5. Kuala Lúmpúr: 24.500 kr.
 6. Varsjá: 25.100 kr.
 7. Taipai: 25.700 kr.
 8. Sófía: 26.100 kr.
 9. Jakarta: 26.900 kr.
 10. Túnis: 27.300 kr.

10 dýrustu borgirnar

 1. London: 65.300 kr.
 2. Osló: 63.300 kr.
 3. Zurich: 61.300 kr.
 4. París: 60500 kr.
 5. Stokkhólmur: 59.700 kr
 6. New York: 57.600 kr.
 7. Moskva: 54.200 kr.
 8. Kaupmannahöfn: 53.800 kr.
 9. Sydney: 49.500 kr.
 10. Singapúr: 47.100 kr.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Vanmetnustu borgirnar
NÝJAR GREINAR: Borg í góðum tengslum við náttúrunaFarið lækkar þegar nær dregur brottför

Mynd: Visit London