Farið lækkar þegar nær dregur brottför

Hjá þremur af þeim fjórum félögum sem fljúga til London þá lækkar verðið þegar styttist í brottfarardag.

Annan mánuðinn í röð sýna verðkannanir Túrista að fargjöld Iceland Express og WOW air til London lækka þegar nær dregur brottför. Farið til borgarinnar í viku 28 (9-15.júlí) er ódýrara í dag en það var fyrir átta vikum síðan hjá báðum félögum. Það sama var upp á teningnum þegar borin voru saman fargjöld í viku 24 sem bókuð voru með fjögra og tólf vikna fyrirvara.

Iceland Express ódýrast

Verðið hjá Icelandair í fyrri hluta júlí er lægra núna en það var fyrir tveimur mánuðum. Í síðustu könnun hafði farið tvöfaldast í verði þegar nær dróg brottför. Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hækkar hins vegar farið hjá sér þegar nær líður skv. síðustu tveimur mælingum. Félagið er mun dýrara en Iceland Express og WOW air í júlí.

Langódýrasta farið til London í viku 28 er með Iceland Express. Kostar það 29.800 krónur. WOW air rukkar 35.919 krónur en sætin hjá easyJet og Icelandair eru á rúmlega fimmtíu þúsund ef bókað er í dag. Þess ber að geta að verðin voru fundin áður en tilboð Iceland Express til London hófst í hádeginu í dag.

Fargjöld, báðar leiðir, til London í viku 28 (9.-15.júlí) ef bókað með tólf vikna fyrirvara og fjögurra vikna.

LondonBókað í dagBókað 19. apríl
easyJet*52.143 kr.45.894 kr.
Iceland Express29.800 kr.37.400 kr.
Icelandair58.640 kr.62.710 kr.
WOW air35.919 kr.37.544 kr.

Dýrara til Kaupmannahafnar

Af verðum dagsins að dæma þá eru færri laus sæti eftir í vélar félaganna til Kaupmannahafnar en til London í sumar. Iceland Express er ódýrast þegar kemur að flugi til Kaupmannahafnar. Lægsta verðið er 42.558 krónur í viku 28 en það er nokkru hærra en lægsta verðið til London er á sama tíma.

Fargjöld Iceland Express til Köben í dag er átta þúsund krónum hærra en það var fyrir 8 vikum síðan. Icelandair og WOW air hafa líka hækkað fargjöldin hjá sér til Kaupmannahafnar á þessu tímabili eins og sjá má á töflunni hér að neðan.

Fargjöld, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar í viku 28 (9.-15.júlí) ef bókað með tólf vikna fyrirvara og fjögurra vikna.

KaupmannahöfnBókað í dagBókað 19. apríl
Iceland Express42.558 kr.34.558 kr.
Icelandair50.530 kr.49.030 kr.
WOW air45.820 kr.45.607 kr.

easyJet aftur dýrara en Iceland Express og WOW

Líkt og áður þá er easyJet dýrara en Iceland Express og WOW air, bæði þegar bókað er með stuttum og löngum fyrirvara. Fargjald félagsins til London í byrjun september er t.a.m. tæpum fjögur þúsund krónum dýrara en hjá Iceland Express eins og sjá má á töflunni á næstu síðu (smellið hér).

Í þessum mánaðarlegu könnunum Túrista eru fundin lægstu fargjöldin, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar og London innan ákveðnar viku hjá hverju félagi fyrir sig. Gert er ráð fyrir að lágmarksdvöl í útlöndum sé tveir sólarhringar.

Smellið hér fyrir samanburð á verði í júlí og september

Mynd: Visit London