Ferðatrygging í símanum

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir margvísleg réttindi sem nú má fá upplýsingarum á íslensku í nýju símaforriti.

Evrópska sjúkratryggingakortið veitir aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi EES-landanna. Íslendingar sem veikjast eða slasast á ferðalagi í einu af hinum 28 löndum EES fá því aðstoð samkvæmt reglum dvalarlandsins. Kortið veitir hins vegar ekki rétt til heimflutnings.

Upplýsingar um hver réttindi handahafa kortsins eru má nú finna í nýju snjallsímaforriti sem er meðal annars á íslensku. Það er því þjóðráð að sækja um kortið á vef Sjúkratrygginga Íslands áður en haldið er í ferðalag til Evrópu og um leið sækja forritið (sjá hér) því það getur auðveldað fólki lífið á ögurstundu að þekkja réttindi sín.

Jákvæðar breytingar fyrir þá sem flytja til útlanda

Þeir vita það sem flutt hafa milli landa að það getur tekið tíma að komast inn í almannatryggingakerfið í nýja heimalandinu. Þann 1. júní voru gerðar breytingar á EES-svæðinu sem einfalda fólki verulega að nýta sér réttindi á milli landa. Einstaklingar þurfa ekki lengur að fara og fá útgefin skjöl um réttindi sín áður en þeir flytja búferlum milli landa. Þess í stað eiga þeir rétt á því að stofnun í því landi sem einstaklingur hefur flutt til sjái um að afla allra upplýsinga um hugsanlegan rétt viðkomandi. Sjá nánar á vef Sjúkratrygginga.

TENGDAR GREINAR: Fjórði hver hefur farið út ótryggður