Grikkir reyna íslensku aðferðina

Sú neikvæða athygli sem Grikkir hafa fengið síðustu misseri hefur haft slæm áhrif á ferðaþjónustu landsins. Heimamenn reyna nú að snúa vörn í sókn líkt og íslenska ferðaþjónustan gerði fyrir tveimur árum.

Gærdagurinn fer í metabækur ferðaþjónustunnar hér á landi því aldrei áður hafa komið jafn margir ferðamenn til landsins á einum sólarhring. Fyrir tveimur árum áttum við hins vegar í vök að verjast í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli. Grikkland á nú í samskonar vanda því komum ferðamanna þangað hefur fækkað mjög frá því að fréttir af efnahagsmálum landsins urðu daglegt brauð í heimspressunni. Eftirspurn eftir flugsætum frá Þýskalandi til Grikklands í sumar hefur til að mynda minnkað um þriðjung.

Ferðamálaráð Grikkja hefur af þessum sökum opnað heimasíðuna TrueGreece.org þar sem finna má viðtöl við heimamenn og ferðamenn sem hvetja fólk til að heimsækja landið í sumar. Þetta er álíka aðferð og notuð var í átakinu Inspired by Iceland.

50 þúsund krónur til Aþenu

Þeir Íslendingar sem vilja sýna Grikkjum stuðning sinn í verki og verja sumarfríinu þar geta fengið ódýr tengiflug frá Kaupmannahöfn og London. En tilboð á flugi héðan til þessara tveggja borga eru áberandi um þessar mundir. Samkvæmt lauslegri könnun Túrista þá er hægt að bóka farmiða til Aþenu frá Kaupmannahöfn og tilbaka með flugfélaginu Norwegian fyrir rúmar 26 þúsund krónur. Frá London kostar farið með easyJet um 36 þúsund. Farið frá Keflavík og til Aþenu þarf því ekki að kosta meira en rúmar fimmtíu þúsund krónur.

Hér má sjá meðmæli með Aþenu frá sænskum listamanni:

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Þýskir túristar kvarta undan GrikkjumFarið lækkar þegar nær dregur brottför
NÝJAR GREINAR: Borg í góðum tengslum við náttúruna

Mynd: keithusc/Creative Commons