Grikk­land að hætti Egils

Áhugi fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar á Grikklandi er flestum kunnur. Hann deilir hér með lesendum uppáhaldsstöðunum sínum og gefur þeim sem vilja kynnast landinu að eigin raun góð ráð.

„Ég hef aðal­lega haldið mig á Krít og eyjunum sem nefnast Kyklades. Krít er paradís, ekki bara vegna veður­sældar og nátt­úrufars, heldur eru Krít­verjar sérlega skemmti­legt og glettið fólk. Það er gott fyrir þá sem eru að byrja að kynnast Grikklandi að fara til Krítar. Þá mæli ég með borg­inni Hania sem er vestast á eyjunni, það er gamall, nota­legur og sérlega fallegur bær. Frá Hania er auðvelt að komast á góðar strendur, upp í fjöll og út í nátt­úruna. Krít­verjar eru mjög tengdir landi sínu og margir íbúar Hania eiga ólífutré eða aldingarða úti í sveit – oft í þorp­unum þaðan sem þeir eru upprunnir.”

Skyldu­stopp á Santorini

„Kyklades eða Hring­eyj­arnar eru margar og fjöl­breyttar. Þær eru fremur gróð­ur­snauðar og vindafar tryggir að þær eru heldur svalar á sumrin. Bæir eru fullir af hvít­kölk­uðum húsum í gömlum stíl, hvítir og bláir litir eru alls­ráð­andi. Mykonos er staður sem er fullur af fjöri, versl­unum og nætur­lífi, en á Santorini standa bæirnir efst uppi á kletta­brún og horfa yfir á stóran eldgíg. Santorini er eitt helsta nátt­úru­undur í heimi og laðar til sín millj­ónir ferða­manna á ári. Þetta eru staðir sem maður verður að sjá, en ég ráðlegg engum að dvelja lengi á Santorini eða Mykonos, erillinn er of mikill og verð­lagið of hátt.”

Góður matur og stórar baðstrendur

Uppá­halds­eyjar Egils eru ólíkar Santorini og Mykonos. „Naxos er stór eyja, á henni er ágætur vatns­bú­skapur og hún er því grónari en margar eyjarnar í kring – minnir nokkuð á Krít. Á eyjunni er mikill land­bún­aður og fisk­veiðar, þannig að ferða­mennskan verður ekki yfir­þyrm­andi. Þarna er að finna stórar sand­strendur sem eru einhverjar þær bestu í Grikklandi, og aðal­bærinn á eyjunni, sem er á stærð við Akur­eyri, er fullur af góðum veit­inga­stöðum. Óvíða í Grikklandi borðar maður betur en á Naxos.”

„Amorgos er afskekkt eyja og hrjóstrug. Á henni er einstakt, nánast dulúðugt, andrúms­loft. Aðal­bærinn á eyjunni er lengst innan­lands, uppi á fjalli, og er oft sveip­aður þoku, jafnvel á sumrin. Þarna er einstak­lega fallegt klaustur sem er byggt utan í kletta­vegg og hefur verið í næstum þúsund ár. Foleg­andros er lítil eyja og ekki sérlega fjöl­sótt. Bærinn þar er einn sá falleg­asti á Hring­eyj­unum, húsin eru hvít­kölkuð og einstak­lega vel varð­veitt. Engir bílar geta ekið inn í bæinn – sem er mikill kostur. Þetta er frábær staður til að vera í næði – í burtu frá ys og þys verald­ar­innar. Það er eins og tíminn líði öðru­vísi á svona stað – þarna er enn að finna bændur sem nota asna við störf sín.”

Höfuð­borgin vex í áliti

„Til Aþenu hef ég komið mörgum sinnum og smátt og smátt hef ég farið að kunna vel við mig þar. Þótt hún standi á gömlum merg er Aþena að miklu leyti nokkuð ung borg. Samgöngur í henni bötnuðu mikið eftir Ólymp­íu­leikana 2004. Fyrir utan Akropolis, hið glæsi­lega nýja Akropolis-safn og aðrar forn­minjar eru býsna skemmtileg hverfi í borg­inni – Plaka og Monastiraki sem eru næst Akropolis, Kolonaki sem er mikið versl­unar og kaffi­húsa­hverfi og Psirri sem er hverfi þar sem ungt fólk heldur mikið til – það er eins og að koma í fugla­bjarg að fara þangað á kvöldin.”

Ekki nauð­syn­legt að bóka gist­ingu fyrir­fram

„Það er auðvelt að finna flug til Krítar frá Norð­ur­lönd­unum, Bretlandi eða Þýskalandi. Til eyjanna er auðveldast að komast með því að fljúga annað hvort til Aþenu og taka flug eða ferju þaðan, en einnig er hægt að finna flug frá sumum evrópskum borgum, til dæmis Berlín, beint til Santorini eða Mykonos. Það er tilvalið að skoða eins og þrjár eyjur í einni ferð – maður þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að bóka hótel eða herbergi.”

 

HÓTEL: Gerðu verð­sam­an­burð á gist­ingu í Aþenu, Santorini, Krít og Mykonos
TENGDAR GREINAR: Grikkir reyna íslensku aðferðina