Samfélagsmiðlar

Grikkland að hætti Egils

Áhugi fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar á Grikklandi er flestum kunnur. Hann deilir hér með lesendum uppáhaldsstöðunum sínum og gefur þeim sem vilja kynnast landinu að eigin raun góð ráð.

„Ég hef aðallega haldið mig á Krít og eyjunum sem nefnast Kyklades. Krít er paradís, ekki bara vegna veðursældar og náttúrufars, heldur eru Krítverjar sérlega skemmtilegt og glettið fólk. Það er gott fyrir þá sem eru að byrja að kynnast Grikklandi að fara til Krítar. Þá mæli ég með borginni Hania sem er vestast á eyjunni, það er gamall, notalegur og sérlega fallegur bær. Frá Hania er auðvelt að komast á góðar strendur, upp í fjöll og út í náttúruna. Krítverjar eru mjög tengdir landi sínu og margir íbúar Hania eiga ólífutré eða aldingarða úti í sveit – oft í þorpunum þaðan sem þeir eru upprunnir.“

Skyldustopp á Santorini

„Kyklades eða Hringeyjarnar eru margar og fjölbreyttar. Þær eru fremur gróðursnauðar og vindafar tryggir að þær eru heldur svalar á sumrin. Bæir eru fullir af hvítkölkuðum húsum í gömlum stíl, hvítir og bláir litir eru allsráðandi. Mykonos er staður sem er fullur af fjöri, verslunum og næturlífi, en á Santorini standa bæirnir efst uppi á klettabrún og horfa yfir á stóran eldgíg. Santorini er eitt helsta náttúruundur í heimi og laðar til sín milljónir ferðamanna á ári. Þetta eru staðir sem maður verður að sjá, en ég ráðlegg engum að dvelja lengi á Santorini eða Mykonos, erillinn er of mikill og verðlagið of hátt.“

Góður matur og stórar baðstrendur

Uppáhaldseyjar Egils eru ólíkar Santorini og Mykonos. „Naxos er stór eyja, á henni er ágætur vatnsbúskapur og hún er því grónari en margar eyjarnar í kring – minnir nokkuð á Krít. Á eyjunni er mikill landbúnaður og fiskveiðar, þannig að ferðamennskan verður ekki yfirþyrmandi. Þarna er að finna stórar sandstrendur sem eru einhverjar þær bestu í Grikklandi, og aðalbærinn á eyjunni, sem er á stærð við Akureyri, er fullur af góðum veitingastöðum. Óvíða í Grikklandi borðar maður betur en á Naxos.“

„Amorgos er afskekkt eyja og hrjóstrug. Á henni er einstakt, nánast dulúðugt, andrúmsloft. Aðalbærinn á eyjunni er lengst innanlands, uppi á fjalli, og er oft sveipaður þoku, jafnvel á sumrin. Þarna er einstaklega fallegt klaustur sem er byggt utan í klettavegg og hefur verið í næstum þúsund ár. Folegandros er lítil eyja og ekki sérlega fjölsótt. Bærinn þar er einn sá fallegasti á Hringeyjunum, húsin eru hvítkölkuð og einstaklega vel varðveitt. Engir bílar geta ekið inn í bæinn – sem er mikill kostur. Þetta er frábær staður til að vera í næði – í burtu frá ys og þys veraldarinnar. Það er eins og tíminn líði öðruvísi á svona stað – þarna er enn að finna bændur sem nota asna við störf sín.“

Höfuðborgin vex í áliti

„Til Aþenu hef ég komið mörgum sinnum og smátt og smátt hef ég farið að kunna vel við mig þar. Þótt hún standi á gömlum merg er Aþena að miklu leyti nokkuð ung borg. Samgöngur í henni bötnuðu mikið eftir Ólympíuleikana 2004. Fyrir utan Akropolis, hið glæsilega nýja Akropolis-safn og aðrar fornminjar eru býsna skemmtileg hverfi í borginni – Plaka og Monastiraki sem eru næst Akropolis, Kolonaki sem er mikið verslunar og kaffihúsahverfi og Psirri sem er hverfi þar sem ungt fólk heldur mikið til – það er eins og að koma í fuglabjarg að fara þangað á kvöldin.“

Ekki nauðsynlegt að bóka gistingu fyrirfram

„Það er auðvelt að finna flug til Krítar frá Norðurlöndunum, Bretlandi eða Þýskalandi. Til eyjanna er auðveldast að komast með því að fljúga annað hvort til Aþenu og taka flug eða ferju þaðan, en einnig er hægt að finna flug frá sumum evrópskum borgum, til dæmis Berlín, beint til Santorini eða Mykonos. Það er tilvalið að skoða eins og þrjár eyjur í einni ferð – maður þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því að bóka hótel eða herbergi.“

 

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu í Aþenu, Santorini, Krít og Mykonos
TENGDAR GREINAR: Grikkir reyna íslensku aðferðina

 

Nýtt efni

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum.  Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem …