Leita nýrra tækifæra fyrir veturinn

Baldur Oddur Baldursson hjá WOW air er ánægður með þær viðtökur sem fyrirtækið hefur fengið hjá almenningi. Sextíu prósent farþega þess hefja ferðalagið í útlöndum.

Túristi leitaði svara við nokkrum spurningum um gang mála hjá WOW air hjá Baldri Oddi framkvæmdastjóra.

Hvað hefur komið þér mest skemmtilega á óvart á undirbúningstímabilinu?
Við erum sérstaklega ánægð með hversu vel okkur hefur verið tekið á markaðnum og hversu mikinn meðbyr við höfum fengið hjá almenningi.  Einnig hefur verið frábært að fylgjast með hvað starfsfólk okkar hefur verið ósérhlífið og unnið dag og nótt til að gera þetta að veruleika.

En mest óþægilega á óvart?
Hversu lengi það tók að tengjast erlendum bókunarvélum

Samkeppni um farþega á leið til og frá London og Kaupmannahöfn er hörð. Hversu hátt hlutfall af farþegafjöldanum vonast þú eftir að WOW air nái á þessum flugleiðum?
Yfir sumartímann erum við með um fjórtán flug á viku frá London og Kaupmannahöfn af um 52 og þá væri þetta um 27 prósent. 

Er vetrardagskráin fullmótuð eða munu fleiri áfangastaðir bætast við?
Hún er ekki fullmótuð en vel á veg komin, en við erum alltaf að leita að nýjum tækifærum og aldrei að vita nema eitthvað bætist við.

Hversu hátt hlutfall bókanna kemur frá fólki sem hefur ferðalagið á Íslandi?
Þetta eru um 40 prósent.

NÝJAR GREINAR: Margir eiga eftir að panta ferð sumarsinsFerðaminningar Arnars Eggerts Thoroddsen

Mynd: WOW air