Norwegian flýgur hingað í vetur

Norska lággjaldaflugfélagið hóf áætlunarflug hingað frá Osló í byrjun mánaðarins. Eftirspurn eftir miðum félagsins er það mikil að Íslandsfluginu verður fram haldið í vetur. Félögin á Keflavíkurflugvelli í vetur verða þá tvöfalt fleiri en þann síðasta.

„Við höfum fengið mjög góðar undirtektir við flugi okkar milli Oslóar og Reykjavíkur í sumar og höfum trú á að flugleiðin verði einnig vinsæl á veturna“, segir Lasse Sandaker-Nielsen, talsmaður Norwegian aðspurður um ástæður þess að félagið hafi ákveðið að ráðist í áætlunarferðir til Íslands yfir veturinn. En félagið hóf Íslandsflug sitt í byrjun þessa mánaðar og flýgur þrisvar í viku. Talsmaðurinn segir í samtali við Túrista að eftirspurnin sé góð bæði frá norskum farþegum sem og íslenskum. Hingað til hafa það verið Icelandair og SAS sem hafa haldið úti áætlunarferðum héðan til norsku höfuðborgarinnar.

Útiloka ekki fleiri áfangastaði

Lasse Sandaker-Nielsen segir að innan Norwegian sé ávallt leitað nýrra tækifæra og hann útilokar ekki að félagið fljúga hingað til lands frá fleiri stöðum í nánustu framtíð. Norwegian er næst stærsta flugfélagið í Skandinavíu og þriðja stærsta lággjaldafélagið í Evrópu. Það næststærsta er easyJet en það félag mun einnig flúgja hingað í vetur frá London-Luton.

Verða sex í stað þriggja

Síðasta vetur voru það Icelandair, Iceland Express og SAS sem flugu reglulega frá Keflavíkurflugvelli. Í vetur bætast hins vegar við hópinn easyJet, Norwegian og WOW air. Aukningin er því töluverð í flugfélögum talið en ekki þegar flugferðirnar eru taldar því Norwegian og easyJet munu aðeins fljúga þrisvar í viku.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Strangara eftirlit með farþegum Delta hér á landi
TENGDAR GREINAR: Netsamband í flugi til og frá ÍslandiRoksala á Íslandsferðum í Noregi

Mynd: Norwegian