Skanna skóna tvisvar

Víðast hvar í Evrópu þarf aðeins lítið hlutfall farþega að fara úr skóm við vopnaleit. Hér á landi er ekki látið nægja að skoða alla skó einu sinni.

Tólf ára drengur á leið frá New York til Íslands þarf ekki að fara úr skóm í vopnaleitinni á JFK flugvelli. Sömu sögu er að segja um áttræða konu sem flýgur hingað frá Denver. Á heimleiðinni þurfa þau bæði að fara úr skóm við öryggishliðin á Keflavíkurflugvelli. Þar eru nefnilega skór allra farþega skimaðir öfugt við það sem gengur og gerist í Bandaríkjunum og í Evrópu, líkt og Túristi hefur áður sagt frá.

Tvöfalt tékk

Ein af kröfunum sem Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna setur flugrekendum er að leitað sé í skóm ákveðins hlutfalls farþega. Samkvæmt upplýsingum hjá Isavia þurfa því sumir farþegar að láta skima skóna sínar tvisvar á Keflavíkurflugvelli. Fyrst við hefðbundna vopnaleit og aftur ef farþeginn lendir í úrtakinu sem Bandaríkjamenn gera kröfu um.

Samkvæmt svörum sem Túristi hefur fengið hjá fjölda evrópskra flugvalla þá láta forsvarsmenn þeirra duga að skima skó farþega sem lenda í úrtakinu. Þetta er til dæmis verklagið á Heathrow í London, stærsta flugvelli álfunnar. Þar geta þó flugfélög skannað skó sérstaklega við brottfararhlið ef þau vilja.

Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, bað um að svar sitt við spurningum Túrista í gær yrði birt í heild sinni. Er orðið við þeirri bón á næstu síðu (smellið hér til að sjá spurningar Túrista og svör Isavia).

NÝJAR GREINAR: Borg í góðum tengslum við náttúruna
TENGDAR GREINAR: Gera Bandaríkjamenn strangari kröfur hér á landi?Keflavíkurflugvöllur meðal 100 bestu

Mynd: Túristi