Strangara eftirlit með farþegum Delta hér á landi

Allir farþegar bandaríska flugfélagsins Delta eru látnir fara úr skóm við vopnaleitina á Leifsstöð. Þeir sem fljúga með félaginu vestur um haf frá Evrópu þurfa sjaldan að fara í gegnum jafn ítarlega skoðun á skóm og gerð er hér.

„Við fylgjum þeim öryggisreglum sem eru í gildi á þeim flugvöllum sem við störfum á,“ segir m.a. í svari Delta fyrir fyrirspurn Túrista um hvort félagið geri kröfu um að skór allra farþega séu skimaðir fyrir brottför. En eins og áður hefur verið fjallað hér á síðunni þá þurfa allir farþegar á Keflavíkurflugvelli að fara úr skóm við vopnaleit. Öfugt við það sem gengur og gerist í Bandaríkjunum og í nágrannalöndunum.

Delta og Icelandair eru einu félögin sem halda úti áætlunarferðum milli Íslands og Bandaríkjanna. Talsmaður Flugmálastjórnar segir það vera flugrekendur og Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, sem gera viðeigandi ráðstafanir til að uppfylla kröfur Flugöryggisstofnunnar Bandaríkjanna. Af svari Delta að dæma þá hefur félagið ekkert með strangar reglur Keflavíkurflugvallar að gera.

Í svari Icelandair segir að það starfi samkvæmt öllum þeim regluverkum sem gilda fyrir áfangastaði félagsins. „Regluverk Bandaríkjanna leggur kröfur á hendur erlenda flugrekenda vegna flugs þangað. Icelandair verður að uppfylla allar slíkar kröfur og vinnur náið með hérlendum samstarfsaðilum eins og ISAVIA að því markmiði. Trúnaðarkvöð hvílir á útfærslu hinna ýmsu verklagsreglna í flugvernd,“ segir einnig í svarinu.

„…hliðin virtust pípa í tíma og ótíma“

Bandarískar reglur gera ráð fyrir handahófskenndri leit í skóbúnaði farþega á leið vestur um haf samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Þar sem farþegar á leið til Bandaríkjanna fara í gegnum öryggishliðin á sama tíma og þeir sem eru á leið til meginlands Evrópu þá er eitt látið yfir alla ganga við öryggishliðin í Keflavík. Í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Túrista, frá því í haust, segir; „…menn voru orðnir langþreyttir á þeim töfum sem orsökuðust af því að hliðin virtust pípa í tíma og ótíma. Jafnvel þótt ekki væri að finna neina aðra skýringu en þá að viðkomandi væri í skóm með málmfjöður/plötu í botninum eða reimakósa úr málmi“.

Íslenskir starfshættir vekja furðu

Það fæst því ekki úr því skorið hvort bandarískar reglur eru ástæðan fyrir ströngu eftirliti hér á landi eða öryggistækin í Leifsstöð. Yfirmaður öryggismála á einum stærsta flugvelli Evrópu telur þó fyrri ástæðuna ólíklega. Í samtali við Túrista segir hann að ef svo væri þá yrðu væntanlega aðrir evrópskir flugvellir líka að skima alla skó að beiðni Bandaríkjamanna. Reglurnar eru því líklega séríslenskar segir þessi ónafngreindi heimildamaður.

Farþegar Delta sem fljúga héðan til Bandaríkjanna hafa því allir þurft að fara úr skóm við vopnaleit en ekki þeir sem fljúga með félaginu frá stærstu flugvöllum Evrópu.

TENGDAR GREINAR: Skoðum skó betur en aðrirBandaríkjamenn slaka á eftirliti en Íslendingar ekki

Mynd: Túristi