Á heimavelli: Greta Mjöll í Boston

Greta Mjöll Samúelsdóttir spilar með knattspyrnuliði Northeastern University í Boston. Hún kláraði BA-nám í fjölmiðlafræði við skólann um síðustu jól og er núna í meistaranámi í stafrænni fjölmiðlun. Hún spilar sitt síðasta tímabil með skólaliðinu í vetur.
Greta Mjöll gefur lesendum nokkrar góðar ábendingar um staði sem gaman er að kynna sér í Boston.

„Bostonborg er yndisleg, lítil stórborg sem hefur upp á óteljandi hluti að bjóða. Hverfið mitt Back Bay er mjög miðsvæðis og einkennist af miklu mannlífi og fjölbreytileika. Copley square er aðeins í nokkra mínútna göngufjarlægð og þar er ávallt mikið líf og margt í gangi. Á þriðjudögum og föstudögum er þar „Farmer´s Market“ þar sem seldir eru ferskir ávextir og grænmeti beint frá bændunum. Einnig er á boðstólnum vörur eins og brauð, sultur, sinnep, plöntur og blóm og svo mætti lengi áfram telja.“

Tvær spennandi götur

„Boylston Steet, sem liggur við Copley Square, er skemmtileg gata full af góðum veitingastöðum og verslunum. Newbury street er svo næsta gata við en hún er frægasta göngu- og verslunargata Boston. Eldgamlar, fallegar „brownstone“ byggingar ásamt fallegum trjám gera Newbury street ólíka týpískum verslunargötum. Þar má finna allt frá fínustu merkjunum, Ralph Lauren, Chanel og Armani, til „eðlilegra verslana“ eins og HM, Zara, og Forever 21. Newbury er einnig rík af dásamlegum veitingastöðum, allt frá dýrum flottum og fínum stöðum yfir í skyndibitastaði.“

Huggulegur garður bæði að sumri og vetri

„Við annan enda Newbury street liggur Boston Common, elsti almenningsgarður Bandaríkjanna. Þar er yndislegt að vera. Fólk situr og les, fer í lautarferðir, kastar frísbídiskum eða bara skoðar styttur og fagran gróður. Þarna er ávallt mikið mannlíf og þegar veðrið er gott eru tónlistarmenn út um allan garð að spila og syngja. Á veturna breytist svo Froskatjörnin (Frog Pond) í skautasvell sem er skemmtilegur viðkomustaður og afar vinsæll.

Charles River áin liggur meðfram endilangri Bostonborg. Þangað fer ég mikið hvort sem það er í hjólatúr eða til að skokka. Það er mjög vinsælt meðal borgarbúa að rölta meðfram ánni. Þar má einnig leigja sér kajak eða bát og skella sér í smá siglingu fyrir lítið fé.“

Góður ítalskur og vinsælasta brauðið

„Eitt af best geymdu leyndarmálum Boston er norðurendi borgarinnar eða „North End“. Þar er sagt að Ítalirnir hafi numið land og tekið sér búfestu. Tvær götur í þessum hluta borgarinnar fljúga með mann alla leið til Ítalíu, Hanover og Salem street. Báðar eru heimsóknarinnar virði og báðar stútfullar af dásamlegum ítölskum veitingastöðum. Það er í raun alveg sama hvar hoppað er inn því ég hef ekki enn orðið fyrir vonbrigðum.

Mínir uppáhaldsstaðir eru Pomodoro og Bricco. Pomodoro er alveg yndislegur, pínulítill staður og maður fær það á tilfinninguna að kokkurinn búi á efri hæðinni og reki staðinn á þeirri neðri. Maturinn er frábær og þjónustan alveg framúrskarandi. Bricco er mjög vinsæll staður og týpískari, ef svo má að orði komast, en býður uppá frábæran mat og drykk.

Beint á móti Pomodoro er svo vinsælasta bakarí Boston, Mike´s Pastry, það er svo sannarlega þess virði að heimsækja þó svo að röðin nái oft langt fram eftir götunni.“

Ódýri ávaxta- og grænmetismarkaðurinn

„Á hverjum föstudegi og laugardegi er haldinn ávaxta- og grænmetismarkaður niðri við Faneuil Hall í Boston, Quincy Market. Þar eru ávextir og grænmeti selt mjög ódýrt og mikil læti og fjör. Markaðurinn er starfræktur allan ársins hring. Faneuil Hall svæðið lifnar allt saman við þegar veðrið er gott, þá er þar fjörugt götulíf.“

TENGDAR GREINAR: Margrét í KaupmannahöfnBjörgvin Ingi í Chicago