Á heima­velli: Greta Mjöll í Boston

Greta Mjöll Samú­els­dóttir spilar með knatt­spyrnu­liði Nort­hea­stern University í Boston. Hún kláraði BA-nám í fjöl­miðla­fræði við skólann um síðustu jól og er núna í meist­ara­námi í staf­rænni fjöl­miðlun. Hún spilar sitt síðasta tímabil með skóla­liðinu í vetur.
Greta Mjöll gefur lesendum nokkrar góðar ábend­ingar um staði sem gaman er að kynna sér í Boston.

„Bost­on­borg er yndisleg, lítil stór­borg sem hefur upp á ótelj­andi hluti að bjóða. Hverfið mitt Back Bay er mjög miðsvæðis og einkennist af miklu mann­lífi og fjöl­breyti­leika. Copley square er aðeins í nokkra mínútna göngu­fjar­lægð og þar er ávallt mikið líf og margt í gangi. Á þriðju­dögum og föstu­dögum er þar „Farmer´s Market” þar sem seldir eru ferskir ávextir og græn­meti beint frá bænd­unum. Einnig er á boðstólnum vörur eins og brauð, sultur, sinnep, plöntur og blóm og svo mætti lengi áfram telja.”

Tvær spenn­andi götur

„Boyl­ston Steet, sem liggur við Copley Square, er skemmtileg gata full af góðum veit­inga­stöðum og versl­unum. Newbury street er svo næsta gata við en hún er fræg­asta göngu- og versl­un­ar­gata Boston. Eldgamlar, fallegar „brown­stone” bygg­ingar ásamt fallegum trjám gera Newbury street ólíka týpískum versl­un­ar­götum. Þar má finna allt frá fínustu merkj­unum, Ralph Lauren, Chanel og Armani, til „eðli­legra verslana“ eins og HM, Zara, og Forever 21. Newbury er einnig rík af dásam­legum veit­inga­stöðum, allt frá dýrum flottum og fínum stöðum yfir í skyndi­bitastaði.”

Huggu­legur garður bæði að sumri og vetri

„Við annan enda Newbury street liggur Boston Common, elsti almenn­ings­garður Banda­ríkj­anna. Þar er yndis­legt að vera. Fólk situr og les, fer í laut­ar­ferðir, kastar frís­bídiskum eða bara skoðar styttur og fagran gróður. Þarna er ávallt mikið mannlíf og þegar veðrið er gott eru tónlist­ar­menn út um allan garð að spila og syngja. Á veturna breytist svo Froska­tjörnin (Frog Pond) í skauta­svell sem er skemmti­legur viðkomu­staður og afar vinsæll.

Charles River áin liggur meðfram endi­langri Bost­on­borg. Þangað fer ég mikið hvort sem það er í hjólatúr eða til að skokka. Það er mjög vinsælt meðal borg­arbúa að rölta meðfram ánni. Þar má einnig leigja sér kajak eða bát og skella sér í smá sigl­ingu fyrir lítið fé.”

Góður ítalskur og vinsæl­asta brauðið

„Eitt af best geymdu leynd­ar­málum Boston er norð­urendi borg­ar­innar eða „North End“. Þar er sagt að Ítal­irnir hafi numið land og tekið sér búfestu. Tvær götur í þessum hluta borg­ar­innar fljúga með mann alla leið til Ítalíu, Hanover og Salem street. Báðar eru heim­sókn­ar­innar virði og báðar stút­fullar af dásam­legum ítölskum veit­inga­stöðum. Það er í raun alveg sama hvar hoppað er inn því ég hef ekki enn orðið fyrir vonbrigðum.

Mínir uppá­halds­staðir eru Pomodoro og Bricco. Pomodoro er alveg yndis­legur, pínu­lítill staður og maður fær það á tilfinn­inguna að kokk­urinn búi á efri hæðinni og reki staðinn á þeirri neðri. Maturinn er frábær og þjón­ustan alveg framúrsk­ar­andi. Bricco er mjög vinsæll staður og týpískari, ef svo má að orði komast, en býður uppá frábæran mat og drykk.

Beint á móti Pomodoro er svo vinsæl­asta bakarí Boston, Mike´s Pastry, það er svo sann­ar­lega þess virði að heim­sækja þó svo að röðin nái oft langt fram eftir götunni.”

Ódýri ávaxta- og græn­met­is­mark­að­urinn

„Á hverjum föstu­degi og laug­ar­degi er haldinn ávaxta- og græn­met­is­mark­aður niðri við Faneuil Hall í Boston, Quincy Market. Þar eru ávextir og græn­meti selt mjög ódýrt og mikil læti og fjör. Mark­að­urinn er starf­ræktur allan ársins hring. Faneuil Hall svæðið lifnar allt saman við þegar veðrið er gott, þá er þar fjörugt götulíf.”

TENGDAR GREINAR: Margrét í Kaup­manna­höfnBjörgvin Ingi í Chicago