Á heimavelli: Guðrún í Orlandó

Það er frábært að búa í Orlandó. Veðrið er yndislegt yfir vetrarmánuðina en það er svolítið heitt og rakt á sumrin“, segir Guðrún Ingibjörg Gunnarsdóttir sem hefur átt heima í Flórída í 19 ár. Hún hefur lengstum unnið í ferðaþjónustunni og því vön að gefa ferðalöngum sem þangað koma góð ráð. Hún deilir hér nokkrum með lesendum.

„Orlandó hefur upp á margt að bjóða, bæði fyrir þau yngri og þá sem eldri eru. Hinir heimsþekktu skemmtigarðar Disney Magic, Wet and wild og Universal Studios hitta alltaf í mark hjá þeim yngstu. Sea World er líka frábær garður fyrir alla aldurshópa sem og Fun Spot, Island of Adventure garðurinn og Blizzard Beach vatnsgarðurinn. Einnig er gaman að heimsækja Kennedy Space Center en þangað er um 50 mínútna akstur frá Orlandó norður af Cocoa beach.

Það er einnig fjöldi dýragarða á svæðinu. Central Florida Zoo er í Orlandó og hinn risastóri Bush Garden er í um tveggja tíma akstursfjarlægð og það tekur tæpan klukkutíma að keyra til Melbourne þar sem Brevard Zoo dýragarðurinn er.“

Strandbæir til allra átta

„Austur af Orlandó liggur Cocoa beach baðströndin. Þangað er styst að fara fyrir þá sem vilja busla í sjónum. Við vesturströnd Flórída eru það St.Petersburg, Bradenton og Sarasota sem mæla má með. Það tekur um tvo tíma að keyra þangað. Einnig er tilvalið að gera sér ferð syðst á skagann til bæjarins Naples sem er einstaklega fallegur og liggur við ströndina. Þaðan má keyra yfir Alligator Alley, í áttina til Miami og svo áfram til Key West sem er syðsti punktur Bandaríkjanna. Þar eru yndislegar strendur og flestir hafa heyrt af fjörinu á Miami Beach.

Fyrir norðan Orlandó er finna elstu borg Flórída, St.Augustine. Þar er margt að skoða, bæði gamalt og nýtt. Þaðan er ekki langt til Daytona sem er áhugafólki um kappakstur að góðu kunn. Á þessu svæði eru líka fínar strendur.“

Skemmtisiglingar frá Flórída

„Útgerð skemmtiferðaskipa er blómleg í Flórída. Frá Port Canaveral höfninni, sem er í um 50 mínútna akstursfjarlægð frá Orlandó, sigla skip félaganna Carnival, Royal Caribbean og Norwegian ásamt Disney. Það síðastnefnda býður upp á frábær skip og skemmtanir fyrir alla aldurshópa. Úrvalið er einnig gott frá Ft. Lauderdale-höfn og frá Miami er siglt út á Karabíska hafið og til Mexíkó. Þeir sem vilja heimsækja nágrannalandið geta líka lagt í hann frá Tampa.“

Perlur sem fáir þekkja til

„Bátsferð um hið fallega svæði við Winter Park er einstaklega skemmtileg upplifun. Gamli bærinn í Winter Park er líka heimsóknarinnar virði því þar er gaman að rölta um og setjast inn á kaffihús eða veitingahús.

Um helgar eru reglulega útimarkaðir við Lake Eola vatnið sem er nánast í miðborg Orlandó. Þangað fjölmenna íbúar svæðisins. Þar eru líka veitingastaðir og leikvöllur fyrir þau yngstu.“

Guðrún rekur ferðaþjónstu á Flórída. Kynna má sér úrvalið hér.

TENGDAR GREINAR: Greta Mjöll á heimavelli í BostonBjörgvin Ingi á heimavelli í Chicago